Menu

Þing ÖSE í Úlan Bator

16/09/2015 - Fréttir
Þing ÖSE í Úlan Bator

Ég sit nú í fyrsta sinn þing ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) sem fram fer þessa dagana í Úlan Bator höfuðborg Mongólíu. Í dag voru til umræðu ýmsar efnahagslegar áskoranir ríkja á ÖSE svæðinu sem nú spannar allt austur til Mongólíu. Meðal annars var fæðuöryggi til umræðu og á það bent að mörg ríki búa við lítið fæðuöryggi til dæmis vegna náttúruhamfara, mengunar og vatnsskorts. Ég notaði tækifærið og minnti á að fá, ef nokkur ríki, geta tryggt fæðuöryggi til langs tíma nema frelsi í viðskiptum sé tryggt. Frjáls viðskipti eru forsenda fæðuöryggis til langs tíma. Ég lýsti þess vegna yfir vonbrigðum með það að land eins og Rússland legði bann á innflutning á matvælum frá Evrópu og Bandaríkjunum, vegna aðgerða ríkjanna í tengslum við ástandið í Úkraínu. Ég nefndi það að þessar viðskiptaþvinganir Rússlands brytu augljóslega gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (GATT samningurinn). Það væri þó ekki aðalatriðið heldur áhrif bannsins á þegna landsins. Ég hvatti ÖSE-þingið til að berjast fyrir frjálsum viðskiptum og mótmæla viðskiptabanninu.

Nikolay Kovalev, þingmaður sendinefndar Rússland og neðri deildar rússneska þingsins, tók þá til máls og sagði Rússland á móti hvers kyns refsiaðgerðum á milli ríkja, bæði pólitískum og efnahagslegum. Rússland hefði hins vegar verið neytt til þess að bregðast við refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þar með renndi Nikolay Kovalev stoð undir þá staðhæfingu að aðgerðir Rússlands séu ekki í samræmi við GATT samninginn sem skilyrðislaust bannar hefndaraðgerðir af þessu tagi. Á sama tíma hefði innflutningsbannið í raun verið Rússlandi til hagsbóta og aukið fæðuöryggi í landinu, sem væri nú farið að framleiða nýjar tegundir af matvælum eins og pylsur hvers konar og spænska skinku! Hann taldi hins vegar Rússland reiðubúið til að gera allt sem hægt væri til að koma á eðlilegum samskiptum á ný – um leið og Vesturlönd draga til baka refsiaðgerðir sína gagnvart Rússum.

Meira um Mongólíu síðar.

ose15092015_1