Fleira en fé í húfi í Icesave

AdVICE-www.jpg

Ég þekki það frá störfum mínum sem lögmaður að þegar tveir deila þá getur oft verið heppilegast að leysa málið með samkomulagi, með því að báðir gefi eitthvað eftir af kröfum sínum. Þetta á einkum við þegar fjárhagslegir hagsmunir eru ekki slíkir að þeir réttlæti tímafrek og dýr málaferli. Jafnvel getur þetta átt við í málum sem varða grundvallarrétt einhvers konar en ekki fjárhagslega hagsmuni. Mál eru nefnilega stundum þannig vaxin að deila um þau verður fljótt sjálfstætt vandamál og jafnvel meira en upphaflegi vandinn. Þá getur verið gott að semja sem fyrst.Við hrun bankanna 2008 kom upp það lögfræðilega álitaefni hvort Ísland hefði „innleitt“ með nægilega vönduðum hætti þá tilskipun ESB sem kvað á um að til staðar þyrfti að vera tryggingasjóður, fjármagnaður með tilteknum hætti, sem tryggði allar innstæður í bönkunum. Ísland hafði vissulega sett á fót slíkan sjóð en við hrunið kom i ljós að hann gat ekki staðið undir kröfum allra innstæðueigenda. Í raun laut hið lögfræðilega álitaefni að því hvort að íslenskir skattgreiðendur ættu að fylla á sjóðinn en það var krafa erlendra innstæðueigenda. Kjörnir fulltrúar ákváðu að best væri að semja við útlendingana. Var þá líklega lögð sú mælistika á málið sem ég reifaði hér í byrjun. Á Icesave málinu og hefðbundnum lögfræðideilum er hins vegar sá reginmunur að í Icesave málinu var tekist á um hagsmuni skattgreiðenda sem kjörnum fulltrúum ber ávallt að gæta til hins ýtrasta. Hagsmunirnir í Icesave málinu voru ekki, og hefðu aldrei verið, einangraðir við það mál eitt og sér. Hvernig sem færi í því máli yrði niðurstaðan fordæmisgefandi.Þetta var meðal þess sem rak okkur til að stofna Advice hópinn sem lagðist gegn samningi um málið. Þegar hópurinn kom saman í febrúar 2011 var útlitið heldur dökkt fyrir málstað hans. Kannanir bentu til að um 2/3 myndu samþykkja Icesave III í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn fjölmiðlamaður mætti á fyrsta kynningarfund hópsins en þeir mættu hins vegar á sambærilegan fund Áfram-hópsins sem vildi samþykkja samninginn. Og margt virtist málstaðnum mótdrægt. Fréttablaðið, Ríkisútvarpið, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnulífs, álitsgjafarnir, bankarnir, matsfyrirtækin, seðlabankinn, mikill meirihluti Alþingis, ríkisstjórnin, samninganefndin og svo framvegis. En að lokum komst mikill meirihluti kjósenda að þeirri niðurstöðu að best væri að hafna samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl. Tveimur árum síðar, 28. janúar 2013, hafnaði EFTA dómstóllinn svo kröfu um ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Menn halda upp á marga daga af minna tilefni. Til hamingju með daginn í dag.

Viðurkenning á ábyrgð skattgreiðenda hefði verið vont fordæmi.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út 28. janúar 2017 – saa@althingi.is

Previous
Previous

Rannsóknarhagsmunir og viðskiptahagsmunir

Next
Next

Þessi ríkisstjórn