Grænu bílaskattarnir leiða til mengunar og sóunar

eldsneytisverd.jpg

Í upphafi síðasta kjörtímabils voru skattar á bensín hækkaðir langt umfram skatta á dísilolíu. Síðan hefur bensínlítrinn borið nær 10 krónum hærri skatta en dísillítrinn. Um leið var bifreiðagjöldum og vörugjöldum á bíla breytt bensínbílum í óhag. Nú skyldu landsmenn reknir úr bensínbílnum, sem flestir höfðu þó kosið fram að því, og upp í dísilbíl. Þessar aðgerðir ýttu meðal annars undir kaup almennings á dísilbílum á borð við þá sem nú hafa reynst búnir fölskum mengunarvörnum.

Hlutur bíla í losun COer lítillSkattahækkanirnar á bensínið og bensínbílana voru allar kynntar sem „grænar“ aðgerðir. Ætlun þáverandi ríkisstjórnar var að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Bensínbíll gefur vissulega frá sér heldur meiri koltvísýring (CO2/km) en sambærilegur bíll með dísilvél. Koltvísýringur er svonefnd gróðurhúsalofttegund en er hættulaus öndunarfærum vegfarenda.

En gróðurhúsalofttegundir myndast víðar en í bílvélum þótt stundum mætti ætla af umræðunni og aðgerðum stjórnvalda að bílar væru nær eina uppspretta þeirra. Í vikunni barst mér svar umhverfisráðherra við fyrirspurn minni á alþingi um skiptingu losunar koltvísýrings hér á landi, skipt niður á geira. Í svarinu kemur fram að gróðurhúsalofttegundir myndast í miklu magni losunCO2aIslandi2012eftir að land hefur verið ræst fram, eins og lengi var gert hér á landi af miklu kappi með stuðningi ríkisins. Þegar þessi þáttur er tekinn með í reikninginn fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda er hlutur fólksbíla í heildarútblæstri af völdum mannsins hér á landi lítill, eða innan við 4%. Þar af má gera ráð fyrir að bensínbílar séu með ríflega helming, eða um 2% af heildarútblæstri.

Ávinningurinn af því að hrekja fólk úr bensínbílum og yfir í dísilbíl er því augljóslega hverfandi hvað útblástur gróðurhúsalofttegunda varðar.

Aukin sótmengunSót úr dísilbílum er margfalt meira en úr bensínbílum. Dísilsótið er talið varasamt heilsu vegfarenda þegar það berst ofan í lungu þeirra. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO (IARC) færði dísilsótið úr „líklega krabbameinsvaldandi“ (flokkur 2a) í „krabbameinsvaldandi“ (flokkur 1) árið 2012.

Árið 1998 hóf breski Verkamannaflokkurinn samskonar herferð gegn bensínbílum og staðið hefur hér á landi undanfarin 5 ár. Í janúar síðastliðnum sagði hins vegar Barry Gardiner þáverandi skuggaráðherra flokksins í umhverfismálum að það sé „nákvæmlega enginn vafi á því að sú ákvörðun sem við tókum var röng. Á þeim tíma höfðum við ekki þær upplýsingar sem síðar komu fram.“ Upplýsingarnar sem hann vísar í um skaðsemi dísilsótsins voru hins vegar komnar fram þegar íslenska vinstristjórnin gerði sömu mistök á síðasta kjörtímabili.svifryk_i_reykjavik_2003_2013

Eftir að vinstristjórnin hóf herferð sína gegn bensínbílnum hækkaði hlutfall dísilbíla af nýskráðum fólksbílum úr 30% árið 2010 í 50% frá og með árinu 2013. Mælingar á samsetningu svifryks sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir Vegagerðina í Reykjavík benda til að sót sé nú (2013) stærri hluti svifryksins en áður (2003), þótt hafa beri sjálfsagða fyrirvara á þessum niðurstöðum vegna áhrifa veðurs og fleiri þátta á sýnatöku.

Sóun fjármuna

Skaðinn af þessari „grænu“ skattastefnu vinstristjórnarinnar felst þó ekki aðeins í meiri sótmengun sem óhjákvæmilega fylgir því að bensínbíl sé skipt út fyrir dísilbíl. Hann birtist einnig í auknum kostnaði landsmanna við innkaup á bílum.

Á síðustu tveimur árum voru fluttir inn fólksbílar fyrir 42 milljarða króna. Dísilbílar eru að jafnaði 12% dýrari í innkaupum en bensínbílar. Ef hlutfall bensín- og dísilbíla hefði haldist óbreytt frá því fyrir „grænu“ neyslustýringu vinstristjórnarinnar hefðu Íslendingar því sparað sér um 1 milljarð króna í erlendum gjaldeyri við innkaup á bílum á árunum 2013 og 2014. Dísilbílar hafa einnig mjög dýra vélarhluti á borð við forþjöppur og olíuverk sem geta hleypt viðgerðarkostnaði upp þegar kemur að viðhaldi.

Við þessa sóun bætast svo neikvæðar afleiðingar af „grænu“ lagaboði síðustu ríkisstjórnar um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti. Þau lög hafa leitt til milljarða aukakostnaðar við innkaup á dýrum lífolíum. Ef ekkert verður að gert má einnig gera ráð fyrir innflutningi á dýru og orkusnauðu etanóli, sem framleitt er úr matjurtum. Etanólið er ætlað til íblöndunar í bensín. Aðrir fylgifiskar notkunar á slíku eldsneyti eru aukin eldsneytiseyðsla í bílvélum, hærra matarverð í heiminum, skógareyðing og þar með aukinn losun gróðurhúsalofttegunda.

Hrein vinstristjórn, óhreint loft

„Grænu“ skattar og lög vinstristjórnarinnar á bíleigendur gátu þannig af sér sóun fjármuna og meiri og verri mengun en ella hefði orðið. Það liggur nú þegar fyrir að þessar aðgerðir voru illa ígrundaðar og höfðu öfug áhrif við það sem þeim var ætlað.

Það væri umhverfinu, heilsu vegfarenda og pyngju hins almenna manns til hagsbóta ef allar „grænu“ lagabreytingar og skatthækkanir vinstri stjórnarinnar á bíla og eldsneyti yrðu felldar niður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. október 2015.

Previous
Previous

Miklu lofað - en hverju?

Next
Next

Bíllinn er blóraböggull