Eru allir bankar í Evrópu ríkisbankar?

Stjórnmálamenn og svokallaðir samningamenn Íslands í Icesave málinu halda þeirri sérkennilegu lögskýringu á lofti að tilskipun Evrópusambandsins um tryggingarsjóð innstæðueigenda leiði til þess að íslenska ríkið beri ábyrgð á innstæðum Landsbankans í Bretlandi.  „Íslenska þjóðin verður að standa við skuldbindingar sínar“ er slagorð þeirra sem fá borgað fyrir að gæta hagsmuna þjóðarinnar og falla æði margir í stafi við herópið. Fullyrt er að þær skuldir sem Landsbankinn, einkarekin fjármálastofnun, stofnaði til, séu í reynd skuldbindingar íslensku þjóðarinnar.Hafi það verið ætlun Evrópusambandsins að ríki þess stæðu alltaf á bak við fjármálalífið með þessum hætti hefði verið eðlilegt að tilskipunin kvæði hreinlega á um slíkt fyrirkomulag. Ekki síst í ljósi þess að ríkisábyrgð á einkarekstri er í orði fordæmd í Evrópusambandsrétti. Er sérstakur tryggingasjóður ekki einkennilegur milliliður í því sambandi? Þá hefði einnig líka verið eðlilegt að einhver umræða hefði farið fram í þessum ríkjum um tilgang og eðli einkavæðingar banka og annarra fjármálastofnanna sem átt hefur stað í öllum Evrópuríkjunum undanfarna áratugi. Ekkert hefur þó komið fram um að einkavæðing þessara fyrirtækja hafi í meginatriðum lotið öðrum lögmálum en einkavæðing annarra fyrirtækja.Sé hins vegar áðurnefndur skilningur á ábyrgð ríkisins á bankainnstæðum réttur getur ekki verið um að ræða nokkra einkabanka, hvorki á Íslandi né í öðrum Evrópulöndum. Þeir sem nú tala með þeim hætti að á íslenska ríkinu hvíli skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. geta trauðla talað um einkavæðingu bankanna að nýju. Það er til lítils að einkavæða ef ríkið ber áfram ábyrgð á rekstrinum. Og þá mun heldur engu skipta hverjir stjórna þessum fyrirtækjum.Þeir þingmenn sem nú tala fyrir því að ná betri samningi við Bretland og Holland, og telja það ekki ómaksins virði að svara því hvort umrædd skuldbinding sé yfirleitt ríkisins, þurfa að svara því hvernig þeir sjá fyrir sér fjármálarekstur framtíðarinnar.Ætli menn í Evrópu líti svo á að þar séu allir bankar ríkisbankar? Varla. Af hverju samþykkja þá þeir sem falið hefur verið að gæta hagsmuna þjóðarinnar um þessar mundir þau rök að Landsbankinn hf. hafi í raun bara verið venjulegur ríkisbanki?Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. júlí 2009.

Previous
Previous

Cinco Días - Þurfa Íslendingar að borga?

Next
Next

Færri og skýrari verkefni