Flug og bíll

Óljós­ar frétt­ir ber­ast af bar­áttu ís­lenskra stjórn­valda við ESB vegna fyr­ir­hugaðra breyt­inga á lög­gjöf ESB um flug­ferðir. Óljós­ar að því leyti að hvorki hef­ur verið upp­lýst um hvað hef­ur farið fram á þeim 100 fund­um sem emb­ætt­is­menn hafa setið né hver krafa Íslands er. Í vik­unni var birt svar for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB við er­indi for­sæt­is­ráðherra sem þó hef­ur ekki verið birt. Lít­il ef nokk­ur umræða hef­ur átt sér stað á Alþingi um málið. Hins veg­ar er ljóst að ís­lensk stjórn­völd líta málið al­var­leg­um aug­um. Örugg­lega ekki að ósekju.

Breyt­ing­in sem ESB boðar er und­ir for­merkj­um lofts­lags­mála. Hún lýt­ur að aukn­um gjöld­um og kvöðum á flug­f­arþega. Mikl­ir hags­mun­ir Íslend­inga eru hér und­ir sem vert að standa vörð um.

Það minn­ir hins veg­ar um leið á að und­an­far­inn ára­tug hafa ís­lensk stjórn­völd leitt í lög regl­ur ESB um svipaðar kvaðir og gjöld á bí­leig­end­ur. Þær hafa haft í för með sér millj­arða kostnað á hverju ári. Þannig hafa millj­arðar króna streymt úr landi í nafni lofts­lags­mála. Þó er al­veg ljóst að gild­andi regl­ur um t.d. íblönd­un í eldsneyti og mark­mið um los­un gróður­húsaloft­teg­unda skipta litlu máli fyr­ir um­hverfið. Árang­ur­inn af þess­um millj­arðakostnaði sem heim­ili og fyr­ir­tæki hafa verið lát­in bera er langt inn­an skekkju­marka í svo­kölluðu los­un­ar­bók­haldi Íslands.

Nú þegar 101. fund­ur er boðaður í flug­deilu Íslands og ESB, hvernig væri þá að ís­lensk­ir ráðherr­ar og þing­menn litu sér einnig nær og út um eld­hús­glugg­ann á um­ferðina hér heima og spyrðu sig eft­ir­far­andi spurn­inga:

Hvers vegna er ekki höfð uppi sama hags­muna­gæsla fyr­ir bí­leig­end­ur og flug­f­arþega? Af hverju er Ísland að kepp­ast við að upp­fylla regl­ur sem miðaðar eru við aðstæður á meg­in­landi Evr­ópu en eiga eng­an veg­inn við hér á landi þar sem 90% allr­ar orku­notk­un­ar er end­ur­nýj­an­leg? Af hverju í ósköp­un­um?

„Af hverju er Ísland að kepp­ast við að upp­fylla regl­ur sem miðaðar eru við aðstæður á meg­in­landi Evr­ópu?“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 25. mars 2023.

Previous
Previous

Svíum farnaðist betur en flestum í faraldrinum

Next
Next

Hæstiréttur talinn óþarfur