Hagsmunir og önnur atriði

Hagsmunir.png

Alls konar hagsmunir alls konar manna liggja víða. Hafi menn raunverulegan áhuga á að draga fram í dagsljósið þá hagsmuni sem skipt geta viðsemjendur manna máli má ljóst vera að stjórnmálamenn eru fráleitt þeir einu sem ættu að huga að einhvers konar hagsmunaskráningu. Dómarar, fjölmiðlamenn og læknar geta til dæmis haft áhrif á mikla hagsmuni, sína eigin eða annarra. Þeirra eigin siðareglur hafa hingað til þótt vera nokkur trygging fyrir faglegri nálgun þeirra á viðfangsefni sín. Tíminn leiðir í ljós hvort það breytist. Hitt liggur fyrir að kröfur til stjórnmálamanna hafa aukist að þessu leyti.

Stjórnmálamenn láta ekkert svið mannlífsins óáreitt, hvorki atvinnulíf né einkamálefni manna. Því miður. Með því að setja landsmönnum reglur, almennar en ekki síst sértækar, er ekki óeðlilegt að kallað sé eftir því að fyrir liggi hvort þeir sem reglurnar setja geti haft af því einhverja hagsmuni umfram þá sem almennt getur talist. Til að bregðast við þessu ákalli hafa sumir stjórnmálamenn og frambjóðendur hér á landi og erlendis birt ýmsar upplýsingar um fjárhag sinn. En hversu langt á að ganga í hagsmunaskráningu án þess að hún fari að bera meiri keim af fréttum af fræga fólkinu en útlistun á raunverulegum hagsmunum sem sanngjarnt og eðlilegt er að séu opinberir?Það eru engir sérstakir hagsmunir fólgnir í því að eiga skuldlaust bíl, hús eða hjólhýsi. Maður kann hins vegar að eiga mikla hagsmuni með eignarhlutdeild í fyrirtæki eða vegna starfa í þágu þess. Fátækt þarf ekki að vera hindrun í stjórnmálum. Að vera skuldum vafinn langt upp fyrir haus kann hins vegar að þvælast fyrir stjórnmálamanni. Það hverjir skuldunautarnir eru getur og verið sérstakt álitaefni. Hagsmunir maka eru svo vissulega hagsmunir hjóna í þessum efnum.Með auknum vilja stjórnmálamanna til að upplýsa um hagsmuni sína er þó hætta á að sjálfskipaðir álitsgjafar fari að líta á það sem hlutverk sitt að sinna eftirliti því sem lögum samkvæmt heyrir undir þar til bærar stofnanir, til dæmis skatteftirlit. Lítil rök standa til þessa eða þess að gera hagsmunaskráningu stjórnmálamanna að einhvers konar sýningaratriði á hinu pólitíska leiksviði.Ég tók þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna árið 2009. Í ljósi almenns vantrausts sem ríkti þá og áðurnefndra sjónarmiða birti ég yfirlit yfir eignir og skuldir okkar hjóna. Ég er enn þeirrar skoðunar að rétt sé og eðlilegt að kjörnir fulltrúar geri grein fyrir helstu hagsmunum sínum. Ég tók það hins vegar sérstaklega fram að ég virti rétt annarra frambjóðanda til að upplýsa ekki um fjárhagsmál sín með þessum hætti. Það geri ég enn.
Við skráningu hagsmuna er hætt við að aðalatriðin hverfi í skugga atriða sem engu máli skipta.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 24. apríl 2016. 

Previous
Previous

Sótsvört neyslustýring

Next
Next

Í þætti Björns Bjarnasonar á ÍNN