Hefndarklám er refsivert

hefndarklam28012016mbl.png

Í gær var á alþingi mælt fyrir frumvarpi um svokallað hefndarklám, í annað sinn. Frumvarpinu er beint gegn dreifingu eða birtingu á myndum af kynferðislegum toga, án leyfis þess sem á myndunum er. Samkvæmt frumvarpinu dregur hefndarklám nafn sitt af því að myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú. Frumvarpið kveður á um 1-2 ára fangelsi við brotum á þessum ákvæðum.Fréttaflutningur af þessu máli hefur verið mikill. Af honum mætti draga þá ályktun að hefndarklám sé ekki refsivert. Það sé í raun refsilaust að dreifa nektarmyndum af fólki án þess samþykkis, til dæmis á internetinu. Þetta er rangt.Í frumvarpinu er stuttur kafli um gildandi löggjöf og vikið að ýmsum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þó ekki því ákvæði sem mestu máli skiptir þegar kemur að hefndarklámi, 209. gr.; Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.Það er nokkuð sérkennilegt að ekki sé vikið einu orði að þessu mikilvæga refsiákvæði, einkum í ljósi margra dóma Hæstaréttar þar sem á það hefur reynt, sérstaklega dóms nr. 312/2015. Í þeim dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms sem sakfelldi ungan pilt fyrir að hafa dreift nektarmynd sem stúlka tók af sjálfri sér og sendi piltinum. Pilturinn var einmitt sakfelldur brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Segir þannig í hinum staðfesta dómi:Hlutrænt séð var sú háttsemi ákærða, að birta á samskiptasíðu sinni nektarmyndir af brotaþola, sem sýna kynfæri hennar í nærmynd, til þess fallin að brjóta gegn blygðunarsemi hennar. Breytir engu þar um þótt leggja verði til grundvallar að brotaþoli hafi sjálf tekið myndirnar og sent þær unnusta sínum, ákærða, af fúsum og frjálsum vilja. Jafnframt braut háttsemin í reynd gegn blygðunarsemi brotaþola, eins og ráðið verður af framburði hennar hjá lögreglu.Pilturinn var hins vegar sýknaður af broti gegn 233. gr. b hegninarlaga (sem varðar móðgun við maka) þar sem ekki þótti sannað að parið hefði verið svo náið að jafna mætti til þeirra tengsla sem 233. gr. b áskilur. Sýkna af broti gegn 233. gr. b er hins vegar aukaatriði í þessu sambandi. Með sakfellingu fyrir brot gegn 209. gr. má vera ljóst að svokallað hefndarklám verður heimfært undir refsiákvæði almennra hegningarlaga, og það með afdrifaríkari hætti en fyrirliggjandi frumvarp kveður á um. Brot gegn 209. gr. getur varðað 4 ára fangelsi en frumvarpið um hefndarklám gerir ráð fyrir að mesta lagi 2 ára fangelsi.Það kemur á óvart að mælt hafi verið fyrir frumvarpi um hefndarklám í ljósi dóma Hæstaréttar um blygðunarsemisbrot. Hafi einhvern tímann verið vafi á því að dreifing nektarmynda af einstaklingi án hans samþykkis sé blygðunarsemisbrot þá ætti nefndur dómur Hæstaréttar að hafa eytt þeim vafa.

Með sakfellingu fyrir brot gegn 209. gr. má vera ljóst að svokallað hefndarklám verður nú þegar heimfært undir refsiákvæði almennra hegningarlaga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. janúar 2016.

Previous
Previous

Í upphafi skal endinn skoða

Next
Next

Icesave - in memoriam