Hverjir stjórna hér?

Ísland tilnefnir einn dómara af 47 við MDE.

Snemma á ár­inu var aug­lýst hér á landi staða þess dóm­ara við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu (MDE) sem skipuð skal Íslend­ingi. Í miðju skip­un­ar­ferl­inu var staðan svo aug­lýst öðru sinni því tveir um­sækj­end­ur drógu um­sókn­ir sín­ar til baka eft­ir langt um­sókn­ar­ferli.

Dóm­ar­ar við MDE eru kosn­ir af þingi Evr­ópuráðsins. Þingið er póli­tísk­ur umræðuvett­vang­ur en um leið lýðræðis­leg­ur að því leyti að það er skipað lýðræðis­lega kjörn­um þing­mönn­um frá aðilda­ríkj­un­um. Fyr­ir Íslands hönd sitja þingið nú þing­menn úr VG, flokki Pírata og Sjálf­stæðis­flokki. Evr­ópuráðsþingið skal greiða at­kvæði um þrjá um­sækj­end­ur sem Ísland til­nefn­ir eft­ir um­sókn­ar­ferli hér á landi og í Strass­borg. Hvorki fleiri né færri. Það vildi svo vel til að ein­mitt þrír ís­lensk­ir lög­fræðing­ar sóttu um stöðuna.

Allt sam­kvæmt bók­inni?

Í sam­ræmi við regl­ur var sett á lagg­irn­ar hér á landi nefnd til að meta hæfni þess­ara um­sækj­enda. Hæfn­is­nefnd­in var skipuð af for­sæt­is­ráðherra. Nefnd­in skilaði for­sæt­is­ráðherra um­sögn um um­sækj­end­ur og mat alla um­sækj­end­ur hæfa og fram­bæri­lega til starf­ans. Und­ir það mat tók sér­leg ráðgjaf­ar­nefnd Evr­ópuráðsins sem einnig er ætlað að vera ís­lensk­um stjórn­völd­um til ráðgjaf­ar um þessa til­nefn­ing­ar. Á mati þess­ara tveggja hæfn­is­nefnda byggði for­sæt­is­ráðherra er hún til­nefndi um­sækj­end­urna þrjá og varpaði bolt­an­um til Evr­ópuráðsþings­ins. Um þá skyldi kosið þar.

Til að und­ir­búa þing­menn fyr­ir at­kvæðagreiðsluna fel­ur Evr­ópuráðsþingið nefnd 22 þing­manna að taka viðtöl við um­sækj­end­ur. Gætt er að því að þing­flokk­arn­ir sem mynd­ast hafa á Evr­ópuráðsþing­inu eigi sína full­trúa í þess­ari und­ir­nefnd í sam­ræmi við þingstyrk. Formaður­inn nú er sósí­alisti frá Rúm­en­íu. Eng­inn Íslend­ing­ur á sæti í nefnd­inni. Fyr­ir­komu­lagið er í sjálfu sér fyr­ir­sjá­an­legt og væri ekki um­hugs­un­ar­vert ef ekki hefðu borist und­ar­leg­ar frétt­ir af störf­um þess­ar­ar und­ir­nefnd­ar við skip­un hins ís­lenska dóm­ara. Tveir um­sækj­endanna drógu skyndi­lega um­sókn­ir sín­ar til baka eft­ir að hafa sótt viðtals­tíma hjá þing­mönn­um und­ir­nefnd­ar­inn­ar.

Það er ekki óþekkt að um­sókn um starf sé dreg­in til baka. Annað tveggja kem­ur þá yf­ir­leitt til. Per­sónu­leg­ir hag­ir um­sækj­and­ans hafa skyndi­lega breyst eða um­sækj­and­inn hef­ur sann­færst um að hon­um sé ekki til set­unn­ar boðið. Að tveir af þrem­ur um­sækj­end­um, sem hafa lagt ára­tuga lög­fræðistörf sín fyr­ir hæfn­is­nefnd­ir hér­lend­is og er­lend­is með góðum ár­angri, skuli draga um­sókn­ir sín­ar til baka hlýt­ur að vekja spurn­ing­ar sem þó virðast ekki hafa verið lagðar fram.

Óút­skýrð aft­ur­köll­un

Ekki fylgdi frétt­um af þess­um sinna­skipt­um nein vís­un til per­sónu­legra haga um­sækj­enda. Ein­ung­is var fjallað um vanga­velt­ur um skort á kunn­áttu í frönsku, sem þó er ekki laga­skil­yrði til þess að gera kröfu um, og um fyrri störf um­sækj­endanna. Allt þætt­ir sem hæfn­is­nefnd­irn­ar báðar skoðuðu sér­stak­lega og gerðu ekki að frá­gangs­sök.

For­sæt­is­ráðherra lýsti því í frétt­um 22. júní sl. að að öllu leyti hefði verið rétt á mál­um haldið af Íslands hálfu við til­nefn­ingu dóm­ara­efna. Und­ir það má trú­lega taka. Það lít­ur hins veg­ar út fyr­ir að af­skipti und­ir­nefnd­ar þing­manna hafi leitt til þess að tveir um­sækj­end­ur hætta báðir við á sama tíma. For­sæt­is­ráðherra þarf að svara því hvort hún eða önn­ur stjórn­völd hafi rann­sakað þetta nán­ar. Því þarf líka að svara hvort ein­staka þing­menn Evr­ópuráðsþings­ins hafi þau völd um­fram at­kvæðis­rétt sinn í þingsal að geta komið í veg fyr­ir að kosið verði um til­tekna um­sækj­end­ur sem Ísland til­nefn­ir. Hvert ná­kvæm­lega er hlut­verk þing­manna­nefnd­ar­inn­ar?

Var Ísland gert aft­ur­reka?

For­sæt­is­ráðherra tel­ur það auðsótt mál og eðli­legt að aug­lýsa bara eft­ir nýj­um um­sækj­end­um, „eins og okk­ur ber að gera“, eins og hún orðaði það í frétt­um. Það má vel vera að það sé rétt að gera það þótt auðvitað beri Íslandi ekki neitt í þeim efn­um. Það blas­ir hins veg­ar ekki við að málið sé svo ein­falt. Hafi Ísland verið gert aft­ur­reka, með bein­um eða óbein­um hætti, með hæfa um­sækj­end­ur sem Ísland til­nefndi kall­ar það á sér­staka um­fjöll­un bæði Alþing­is og stjórn­valda. Það þarf með öðrum orðum að upp­lýsa um ástæður þess að um­sækj­end­urn­ir drógu sig til baka. Það kann vel að vera að for­sæt­is­ráðherra VG kunni því vel að Hæstirétt­ur Íslands fari ekki leng­ur með æðsta dómsvald hér á landi. Það er þá bara eðli­legt fram­hald að er­lend­ir þing­menn stjórni því hvaða Íslend­inga ís­lensk stjórn­völd til­nefna til setu í MDE. En for­ysta Sjálf­stæðis­flokks­ins og þing­menn hans? Skyldi brá af þeim núna? Eða er hún nú meitluð í stein sama upp­gjöf­in og menn sýndu gagn­vart stofn­un­um Evr­ópu í Ices­a­ve-mál­inu?

Þessu tengt þá má rifja upp að MDE hef­ur haft mikl­ar skoðanir á því hvernig dóm­ar­ar hafa verið skipaðir hér á landi. Ný­lega samdi rík­is­stjórn VG við sak­fellda menn, m.a. of­beld­is­menn sem játað höfðu brot sín, um bæt­ur vegna dóma sem kveðnir voru upp af dómur­um, lög­leg­um og rétt­mæt­um í sín­um embætt­um, sem ég skipaði með samþykki Alþing­is. Eng­in laga­stoð er fyr­ir greiðslu slíkra bóta en til­mæli um þær komu frá MDE. Mér er til efs að nokk­urt evr­ópskt ríki hefði látið bjóða sér þessa fram­komu en for­sæt­is­ráðherra Íslands taldi ein­boðið að bug­ta sig og beygja fyr­ir hinni er­lendu stofn­un og seilst var í vasa skatt­greiðenda.

„Hafi Ísland verið gert aft­ur­reka, með bein­um eða óbein­um hætti, með hæfa um­sækj­end­ur sem Ísland til­nefndi kall­ar það á sér­staka um­fjöll­un bæði Alþing­is og stjórn­valda.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2022.

Previous
Previous

Litið um öxl

Next
Next

Réttarríkið á rangri leið