Nú er gott að líta um öxl

icesave_logo_859080.jpg

Þótt það sé klisja þá eru áramótin auðvitað tilefni til þess að líta um öxl og rifja upp helstu atburði ársins sem er að líða. Af því má hafa gagn og mögulega eitthvert gaman. Árin eru auðvitað misviðburðarík og sum árin einkennast af einhvers konar déja vu, atburðum sem í minningunni höfðu þegar átt sér stað á öðru ári eða virðast einhvern veginn endurtekning á eldri viðburði. Dæmi af þessum toga er Icesave.Nánast linnulaus umræða var um Icesave allt frá því í desember 2008 og fram til apríl 2011 er þjóðin felldi í annað sinn lagafrumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna, sem var þriðja tilraun stjórnvalda til þess að takast á hendur skuldbindingar sem þau gætu aldrei staðið við. Svo fór málið fyrir EFTA-dómstólinn sem tók sömu afstöðu til málsins og meirihluti þjóðarinn og sagði enga ríkisábyrgð á þessu ævintýri Landsbankans. Þetta var árið 2012. Umfjöllun helstu álitsgjafa þjóðarinnar um Icesave tók þó lítt mið af þessum endurtekningum og faglegri umfjöllun um málið. Margt hefði mátt bæta í umræðunni hefðu um áramót litið um öxl og rifjað upp helstu staðreyndir. Þeir sem vildu fella lög um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans vildu það einmitt þess vegna. Þeir voru einfaldlega andvígir því að íslenskir skattgreiðendur væru gerðir ábyrgir fyrir skuldum einkafyrirtækis.Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, var einn þeirra sem hvöttu Íslendinga ítrekað til að undirgangast ábyrgðina á skuldum Landsbankans. Stefán skrifaði í Fréttablaðið 17. ágúst 2009 að það væri fráleitt að fara með málið fyrir dóm til að útkljá ábyrgðina. „Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð,“ sagði prófessorinn. Fleiri töluðu á þessum nótum.Nú hafa þessir úrtölumenn haft tvenn áramót til þess að líta yfir farinn veg, gera upp málin og jafnvel læra nokkuð af reynslunni. Því er þó ekki að heilsa. Nú, þegar stefndi í fyrstu jólahátíðina í mörg ár án Icesave, ríður prófessorinn fram á ritvöllinn og gerir lítið úr fyrrnefndri andstöðu þjóðarinnar við ríkisábyrgðina. Komið hefur nefnilega í ljós að Icesave-kröfuhafarnir hafa endurheimt um 85% af Icesave-kröfunni. Þetta telur háskólaprófessorinn til marks um að þjóðaratkvæðagreiðslurnar og sigurinn í dómsmálinu hafi skipt frekar litlu máli! Prófessorinn viðurkennir þó að þjóðin sleppi „að vísu“ við vaxtagreiðslurnar sem lagafrumvörpin gerðu ráð fyrir.Stefán og meðreiðarsveina hans hvet ég til að nýta þessi áramót til að líta um öxl og gera þetta blessaða Icesave upp gagnvart sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll.

>>Menn áttu aldrei von á öðru en að Icesave-kröfuhafar fengju endurheimt hluta krafna sinna úr þrotabúi Landsbankans. Það breytir því ekki að andstaða við ríkisábyrgðina var bæði réttmæt og nauðsynleg.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28. desember 2014.

Previous
Previous

Píslarganga stjórnmálamanns

Next
Next

Hátíðarstund á þingi