Píratar rýna í gögnin

gægst-í-gögnin.jpg

Píratar gáfu fyrir löngu út dánarvottorð „gömlu flokkanna“ og boðuðu mikla byltingu í þágu lýðræðis (ekki samt gamla lýðræðisins heldur nýja, beina lýðræðisins) með tölvuþjónustu að vopni. Allt þeirra tal um þetta fyrirbæri jafn gamalt Períkles hefur einkennst af yfirlæti, svolítið eins og tal þeirra um friðhelgi einkalífsins sem er eitt meginstef Pírata. Allir eiga rétt á leynd og nafnleysi.Á þetta tvennt reyndi nú á dögunum í prófkjöri þeirra. Lýðræðinu var vikið örlítið til hliðar tímabundið þegar kom að því að staðfesta lista sem valinn hafði verið af þátttakendum í prófkjöri í Norðvesturkjördæmi. Um þessa smölun frambjóðandans hefur verið fjallað.Hitt sem vakti athygli mína var viðtal við pírata í kjördæmisráði sem af þessu tilefni svaraði fréttamanni um smölunina í hádegisfréttum RÚV á laugardaginn með þessum hætti:

...hann gekkst við því meðal annars að hafa fengið, eins og hann orðaði það, nokkra félaga, 20-30 manns, til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig og samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu en fólki var frjálst að raða öllum sem að voru í framboði á kjörseðil hjá sér

Ég veit ekki betur en að menn hafi greitt atkvæði í prófkjöri Pírata gegnum alnetið en ekki með handauppréttingu. Ekki þekki ég prófkjörsreglur Píratanna en finnst það athyglivert að greina megi nákvæmlega frá hvaða manni tiltekið atkvæði er. Svona í ljósi áherslu Pírata á friðhelgi einkalífsins lítur þetta eitthvað undarlega út.Hér hefur kjörstjórn í prófkjöri fengið alveg nýtt hlutverk við að greina frá hvaða einstaklingum atkvæði koma.Myndin sem fylgir þessari grein er ekki sviðsett. Hún er af okkur nöfnunum af alþingi og Smára McCarthy frambjóðanda í prófkjöri Pírata á fundi fólksins um helgina.

Previous
Previous

Sjálfstæðiskonum gekk vel í þremur kjördæmum, síður í tveimur

Next
Next

Að loknu prófkjöri