Sjálfstæði - í tilefni 90 ára afmælis

NOLA-2012-202.jpg

Níutíu ára aldur er hár aldur. Enginn af mínum áum hefur náð þeim aldri. Í tilviki fyrirtækja og félagasamtaka er níutíu ára starfsemi líka langur tími. Í stjórnmálum, þar sem vikan þykir löng, eru 90 ár afar langur tími.Sjálfstæðislfokkurinn fagnar níutíu ára afmæli í dag. Tölfræðin hér á landi og annars staðar í hinum vestræna heimi sýnir það og sannar að þeim fer frekar fjölgandi flokkunum sem teljast nýir en hinum sem ná að komast á virðulegan aldur. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, að því er manni stundum virðist jafn margar og þeir eru mennirnir sem að stofnun flokkanna koma. Flokkar spretta upp af minnsta tilefni. Vegna einstakra mála (svokallaðir einsmálsflokkar) eða vegna persónulegs metnaðar þess sem ekki fær framgang í sínum flokki. Dæmi um þetta eru þekkt frá upphafi sögu stjórnmálaflokka. Í síðari tíð hafa reglur um fjármál stjórnmálaflokka svo án efa haft áhrif á fjölda stjórnmálaflokka með því að nú er þeim tryggt fé úr vösum skattgreiðenda að uppfylltum vægum skilyrðum. Flokkar sem stofnað er til í þessum tilgangi eiga sjaldan langa lífdaga. Til að endast í stjórnmálum þurfa bæði flokkar og fólkið í þeim að eiga erindi.ErindiðSjálfstæðisflokkurinn átti árið 1929 brýnt erindi við landsmenn. Hann var stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Heiti þessara þriggja flokka bera með sér allt sem prýða má góðan stjórnmálaflokk. Íhaldsemi, frjálslyndi og sjálfstæði. Erindi Sjálfstæðisflokksins gagnvart þjóðinni var frá upphafi að stuðla að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Fullvalda ríki og fullvalda einstaklingar. Það var erindi Sjálfstæðisflokksins árið 1929.Höfum við náð þessum markmiðum? Getur verið að erindi Sjálfstæðisflokksins sé lokið? Það ætti að vera hverjum manni ljóst hver stjórnskipuleg staða Íslands er gagnvart öðrum ríkjum. Ísland er fullvalda og sjálfstæð þjóð og í samanburði við langflest ríki heims er frelsið einna mest hér. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér eða í einni sviphendingu og þetta mun ekki tapast í einu lagi. Það er hins vegar ekki tryggt að þessi jákvæðu eiginleikar sem við búum við tapist ekki eða skerðist á einhvern hátt. Atvinnufrelsi manna er á ýmsan hátt takmarkað, að sumu leyti með ómálefnalegum hætti. Síbreytilegir lífshættir, almennt viðhorf manna og þróun í vísindum og tækni gerir þá kröfu til okkar að frelsi einstaklings til orðs og æðis sé stöðugt umhugsunarefni, með það að markmiði að frelsið nái til nýrra þátta sem voru mönnum framandi áður fyrr. Vilji menn ekki glata frelsinu þarf að standa vörð um það. Sjálfstæðisflokkurinn á enn brýnt erindi að þessu leyti.Fullveldi og sjálfstæði getur líka glatast auðveldlega þótt ólíklegt sé að það gerist ekki í einni svipan. Sjálfstæðislflokkurinn hefur frá upphafi haft forgöngu um samvinnu við aðrar þjóðir. Fátt er mikilvægra en einmitt lítilli eyþjóð. Um leið er verður lítil eyþjóð að hafa sína eigin hagsmuni í fyrirrúmi því það gerir engin önnur þjóð fyrir hana þótt vinveitt sé. Með auknu mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á öllum sviðum verður það að vera sérstakt markmið stjórnmálamanna að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn á hér einnig brýnt erindi.Óviðjafnanlegur stuðningurÍ  opnunarhófi hins ágæta Landsréttar í byrjun síðasta árs varpaði ég fram þeirri spurningu hvort hið litla eyríki okkar, lýðveldið Ísland, væri mögulega farsælasta þjóðfélag veraldarsögunnar. Ég hef ekki fengið miklar efasemdir um að þessi spurning eigi rétt á sér. Hún er hið minnsta umræðunnar virði þótt það hvarfli ekki að nokkrum manni að slíkum spurningum um mannlegt samfélag megi svari í eitt skipti fyrir öll. Til þess er maðurinn blessunarlega of flókið og hverfult viðfang. Einmitt það gerir hann að manns gamni að við erum sjálfstæðir einstaklingar, við erum fjölbreytt og fögnum því þótt við séum öll af sömu þúfunni. Húðlitur, landsvæði og trúarbrögð hafa engan einkarétt á fjölbreytninni. Hver einstaklingur er einstakur óháð ytri einkennum.Ég segi ætíð með nokkru stolti frá því að ég er alin upp á miklu sjálfstæðisheimili. Með því á ég við að virðing var borin fyrir sjálfstæði í tvennum skilningi en ekki ótengdum. Fyrir sjálfstæði einstaklingsins. Og fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.Það er þannig að á meðan við ákveðum að deila lögunum þurfum við að hafa sjálfdæmi um hver lögin eru og hver setur þau. Það er því gegn öllum rökum að sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðu ríki lúti fyrirmælum annarra.Þess vegna voru mér það sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga. Aldrei áður í sögu lýðveldisins höfðu handhafi framkvæmdavalds, handhafar löggjafarvalds og handhafar dómsvalds á Íslandi, auk jafnvel forseta Íslands umfram skyldu, fest nýja stofnun í sessi með jafn afgerandi hætti. Landsréttur og dómararnir fimmtán sem réttinn skipa hafa einstakan stuðning þeirra er málið varðar.Ég treysti því að þegar frá líður verði litið á þessa atlögu frá pólitísk kjörnum dómurum í Strassborg með sömu augum og minnihlutinn gerði. Sem umboðslaust pólitískt at.Næstu árVið sem höfum verið kjörin verið til starfa á lýðræðislegum vettvangi, í landsmálum eða sveitarstjórnum, til lengri eða skemmri tíma fyrir hönd Sjálfstæðisflokkinn hljótum að þakka landsmönnum samfylgdina í 90 ár. Ég lít bjartsýn til næstu 90 ára í sögu Sjálfstæðisflokksins.Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 25. maí 2019.  

Previous
Previous

Útlendingar á Íslandi

Next
Next

Schengen