Tvö frelsismál að lögum fyrir jól

Alþingi.jpg

Tvö frumvörp mín sem auka atvinnufrelsi urðu að lögum fyrir jól. Þannig vildi til að þetta voru tvö fyrstu stjórnarfrumvörpin frá ráðherrum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem verða að lögum. Það er gott upphaf á stjórnarsamstarfinu og ekki síður á nýju þingi því bæði frumvörpin urðu samhljóða að lögum frá alþingi.Fyrra frumvarpið varðaði dvalarrétt iðnnema hér á landi. Eins og sagt hefur verið frá í fréttum undanfarið féll iðnnám brott úr frumvarpi til laga sem unnið var í þverpólitískri nefnd á árunum 2014 – 2015. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög frá alþingi sumarið 2016. Ég hef ekki séð nein merki um annað en að iðnnámið hafi fallið brott fyrir misgáning í meðförum nefndarinnar. Það ætlaði sér líklega enginn er kom að málinu að sínum tíma að haga málum á þennan veg. Hagsmunasamtök komu heldur ekki auga á þetta áður en frumvarpið varð að lögum. Og raunar enginn fyrr en vísa átti matreiðslunema úr landi nú í haust á grundvelli þeirra. Ég sagði þá þegar að ég myndi leggja fram frumvarp um að lagfæra þetta. Frumvarpið varð að lögum fyrir jól.Seinna frumvarpið varðaði m.a. rétt manna til að flytja mál fyrir Hæstarétti. Þegar löggjöf sú sem kemur á fót millidómstigi hér á landi var samþykkt árið 2016 var ráðgert að öll mál, bæði sakamál og einkamál, sem áfrýjað hefði verið til Hæstaréttar þann 1. janúar 2018, myndu færast til Landsréttar þegar hann tæki til starfa. Frá því fyrirkomulagi var aftur á móti fallið síðar og að endingu ákveðið að öllum einkamálum sem áfrýjað er til Hæstaréttar áður en Landsréttur tekur til starfa verði lokið í Hæstarétti. Nú er áætlað að þessi mál verði um 260 talsins (þau gætu orðið fleiri) og er ljóst að nokkur hluti þeirra mun uppfylla skilyrði prófmáls samkvæmt gildandi löggjöf. Mér þótti því í því ljósi eðlilegt að gefa lögmönnum sem hafa flutt a.m.k. eitt prófmál fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018 kost á að ljúka öflun málflutningsréttinda fyrir því dómstigi samkvæmt eldri reglum kjósi þeir það. Þessi lagabreyting var sömuleiðis samþykkt samhljóða nú fyrir jólin.Þetta var ágæt aðventa fyrir frelsið.Skemmtilega myndin hér að ofan er af jólakorti forseta Alþingis þetta árið. Börnin tvö standa í Alþingisgarðinum með ljósmynd af sambandslaganefndinni sem tekin var á sama stað árið 1918.

Previous
Previous

Landsréttur tekur til starfa

Next
Next

Þéttingarstefnan dreifir byggðinni