Umhverfisumræða á villigötum

París-15.png

Umhverfismál eiga brýnt erindi í kosningabaráttuna. Ég hef fylgst með umræðu um umhverfismál um árabil og tekið þátt í henni eftir atvikum. Stundum ber á því að kappið beri menn ofurliði í rökræðum um þessi mikilvægu mál. Staðreyndir eru þá látnar lönd og leið og óþarfur réttrúnaður á einstakar aðgerðir við umhverfisvernd tekur umræðuna yfir. Oft má hafa gaman af þessu. Þegar hins vegar umræðan er viljandi leidd á villigötur í kosningabaráttu, í pólitískum tilgangi, þá þykir mér rétt að staldra við.Á Facebook er hópur sem kallast París 1,5. Þar hefur verið sett fram svokölluð Loftslagsrýni flokkanna í þeim tilgangi að hampa einstökum flokkum og úthrópa aðra. Vinstri flokkarnir fá góða einkunn þrátt fyrir sín „umhverfisslys“ á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fær falleinkunn. Ég sendi þessum ágæta Facebook hóp eftirfarandi athugasemd sem ekki hefur verið birt. Ég tel því rétt að birta bréfið hér að neðan. Í því geri ég verulega athugasemd við Loftslagsrýni flokkanna.

Ágætu aðstandendur París 1,5Í svonefndri loftslagsrýni ykkar er ekkert litið til þess sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert heldur aðeins fagurgala þeirra korter í kosningar. Vinstri flokkarnir sem settu milljarða af skattfé almennings í málmbræðsluna á Bakka, beindu fólki yfir í meira mengandi bíla með breytingum á sköttum á eldsneyti og stóðu að olíuleyfunum á Drekasvæðinu fá hæstu mögulega einkunn hjá ykkur fyrir að segjast vera á móti samningunum sem þeir gerðu sjálfir við olíufyrirtækin. Stjórnarflokkarnir fá hins vegar algera falleinkunn hjá ykkur. Það er þó núverandi ríkisstjórn sem undirritaði Parísarsamkomulagið, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Teljið þið það ekki vera til marks um að þessir flokkar hafi sett sér markmið í þessum efnum? Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra er nýkomin frá New York þar sem hún afhenti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fullgiltan loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna af hálfu Íslands, nokkrum dögum eftir að allir þingmenn flokkanna samþykktu hann á alþingi. En þið segið stjórnarflokkana ekkert hafa sinnt þessum málum í aðdraganda kosninga. Ríkistjórnaarflokkarnir hafa jafnframt staðið vörð um grunnþætti núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Þetta kerfi skilaði 38% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi á árunum 1990 – 2012 enda býður það upp á góða skipulagningu veiða og þar með orkusparnað og minni útblástur. Þið spyrjið um innviði. Á fjárlögum 2016 er fjárheimild að fjárhæð kr.67 m.kr. á ári, í þrjú ár, fyrir verkefnið „Rafbílar – átak í innviðum“. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem samþykkt var af ríkisstjórn í nóvember. Fyrir þetta verkefni Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins gefið þið flokknum 2 af 10 mögulegum en Píratar sem aldrei hafa gert neitt í þessum efnum fá auðvitað 9. Það er líka áhugavert að þið sleppið að „prófa“ í súrnun hafsins sem kann að vera eitt af stóru hagsmunamálum Íslands í þessum efnum. Einn þingmaður sinnti því máli umfram aðra á liðnu þingi og fékk fyrr á árinu samþykkta þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum, Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Sjálf hef ég fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst frá framræstu landi, í ræðu og riti, fjölmörgum blaðagreinum og viðtölum í útvarpi og sjónvarpi og lagt fram fjórar fyrirspurnir á alþingi á undanförnu ári er málið varða. Auk þess að stóð ég fyrir opnum fundi „Endurheimt votlendis og loftslagsmálin“ nú í haust. Síðasta blaðagrein mín um loftslagmálin birtist aðeins fyrir nokkrum dögum í The Reykjavik Grapevine. Frumvarp sem ég lagði fram ásamt þremur öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti miðar einnig að því að rétta hlut rafbíla í orkubókhaldi landsins og draga úr þeirri sóun sem lögin hafa því miður haft í för með sér. Það eru því gróf ósannindi að þessum málum hafi ekki verið sinnt af stjórnarflokkunum og frambjóðendur þeirra hafi ekki tekið málið upp í aðdraganda kosninga. Ég hygg að það séu oft á tíðum óvönduð vinnubrögð af þessu tagi sem gera fólk afhuga umhverfismálum á borð við loftslagsmálin. Fólk fær á tilfinninguna að málin hafi verið hertekin af óbilgjörnum hópum sem nota þau til að ná fram ýmsum öðrum pólitískum markmiðum sínum. Kær kveðja,Sigríður Á. Andersen, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. 

Previous
Previous

Íblöndun lífeldsneytis er 2000 sinnum dýrari en endurheimt votlendis

Next
Next

Að loknum kosningum, hvað þá?