Hátíðarstund á þingi

Ég fékk tækifæri til þess að hafa áhrif á fjárlög ríkisins næsta ár er ég tók tímabundið sæti á alþingi nú í desember. Eða þannig. Aðkoma alþingis að fjárlögunum í desember einkennist af óteljandi breytingartillögum og yfirgengilegum málamiðlunum á alla kanta, skítreddingum myndi einhver segja. Fyrir þann sem kemur inn í vinnuna á þessu stigi endist sólarhringurinn ekki til þess að fá yfirsýn yfir allt sviðið sem fyllist af hæfileikalausum leikurum eftir því sem nær dregur atkvæðagreiðslu. Málþóf um eitthvað sem engu máli skiptir, í þeim tilgangi að knýja fram milljón krónur hér og þar, er regla frekar en undantekning í desember. Málþóf í þágu skattalækkunar og minni ríkisreksturs þekkist hins vegar ekki. Því miður.Ég skal vera fyrst manna til þess að viðurkenna að fjárlögin, sem ég tók þátt í að samþykkja, kveða á um margvísleg ónauðsynleg ríkisútgjöld, óráðsíu jafnvel. Hins vegar áttu sér stað undur og stórmerki sem draga úr sárustu kvölinni sem fjárlagafrumvarpið veldur frjálslyndu fólki hægra megin í pólitík. Einn ógagnsæjasti skatturinn var afnuminn í eitt skipti fyrir öll. Vörugjöld, 15-25%, hafa verið lögð á ýmsar vörur sem við öll notum daglega; handáburð, ávexti, gólfteppi, krullujárn, lampa, brauð... Það var eiginlega hátíðlegt að taka þátt í afnámi þessa sérkennilega skatts á svokallaðar almennar vörur.En við erum ekki laus við óeðlilega skatta, ekki einu sinni alveg laus við vörugjöldin. Bifreiðar, áfengi, búvörur og tóbak bera áfram vörugjöld. Efra þrep virðisaukaskattsins er enn allt of hátt, og neðra auðvitað líka. Tollar eru áfram við lýði.Mönnum er mjög í mun að draga úr áhrifum skattkerfisbreytinganna á ýmsa hópa. Alls kyns undanþágur hafa tíðkast. Ferðaþjónustan hefur ekki innheimt virðisaukaskatt en hefur nú verið felld í neðra þrepið. Af hverju ekki það efra? Laxveiði er áfram undanþegin virðisaukaskatti. Bílaleigur og rútubílafyrirtæki hafa fengið undanþágur frá vörugjöldum á bifreiðar. Nú í desember var dregið úr undanþágu bílaleiga en ekki rútufyrirtækja. Áfram verður innflutningur á bílum sem einkum hátekjufólk kaupir (rafmagns- og metanbílar) undanþeginn vörugjöldum eða með verulegum afslætti en aðrir bílar bera áfram allt að 65% vörugjöld. 65%!Hví þessar undanþágur og afslættir yfirleitt? Jú, vegna þess að þessir skattar eru of háir. Afnám vörugjaldsins nú í einu skrefi sýnir að það er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir við fjárlagagerð og ná nægilegri samstöðu um þær á alþingi. Næstu skref þarf að taka við gerð næstu fjárlaga, ekki þarnæstu. Af nógu er þar að taka.

>>Ef löggjafinn viðurkennir að sumum fyrirtækjum er ofviða að greiða þá skatta sem lagðir eru á hvað má þá segja um heimilin í landinu og getu þeirra til að greiða t.d. 65% vörugjald fyrir fjölskyldubílinn?<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. desember 2014.

Previous
Previous

Nú er gott að líta um öxl

Next
Next

Kostar ekkert að ferðast um landið?