Menn trumpast víða - hér vegna tryggingarfélaga

getFile1.jpg
Allur heimurinn horfir í forundran á orðljótan appelsínugulan mann rúlla upp keppinautum sínum í baráttunni um embætti forseta í mikilvægasta efnahagsveldi heims. Aðferðin sem hann beitir er ekki flókin. Hann miðar ræður sínar við lægsta samnefnara og nær þannig eyrum allra, ekki bara þeirra sem leggja mælistiku á það sem hann segir. Hann kjaftar sig inn á tilfinningar fólks með loforðum og hugmyndum sem varla eru af þessum heimi. Dæmi: Eitt er að vilja herða landamæravörslu Bandaríkjanna gagnvart Mexíkó, jafnvel með því að reisa vegg milli landanna. Það hins vegar að halda því fram að það verði Mexíkanar sem muni borga fyrir vegginn er ævintýraleg frammistaða og bara gert vegna þess að það hljómar vel. »Látum þá borga« sönglar maðurinn (bókstaflega) og fjöldi fólks með, en ekki allir. Ekki þeir sem vita að forseti í einu ríki getur ekki þvingað fólk í öðru ríki til að fjármagna vegg. »Látum þá borga« er bull en nokkuð gott hljóðbrot.Að svo miklu marki sem Íslendingar hafa látið sig varða slaginn í Bandaríkjunum virðast flestir átta sig á, ekki bara bullinu í Trump heldur líka þeim annarlegu hvötum sem að baki búa. Trump hefur það sem reglu að fjalla um fólk út frá staðalímyndum. Gyðingar, múslimar, Mexíkanar, stjórnmálamenn og jafnvel öll Washington-borg hefur þurft að sitja undir þessari aðferð Trumps. Þannig nær Trump að búa til margvíslega hópa sem auðvelt er að gera tortryggilega með staðalímyndum. Við hér á Íslandi hristum hausinn yfir þessu trumpi...en á sama tíma:Þrjú vátryggingafélög á Íslandi eru að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða landsmanna, ríkisins og fjárfestingarsjóða sem almenningur á hluti í. Félögin hafa ekki greitt hluthöfum sínum arð í nokkur ár þrátt fyrir að hagnaðurinn, sem er ekki vegna vátryggingastarfsemi heldur vegna fjárfestingarstarfsemi, hafi verið nokkuð mikill. Áhætta á verðbréfamarkaði undanfarin ár hefur sem sagt skilað árangri. Lagt er til að greiða hluthöfum, sem lögum samkvæmt eiga þetta fé, arð. Fjárhæð arðgreiðslunnar tæki mið af því að tryggingafélögin yrðu eftir arðgreiðsluna fjárhagslega stöndug og vel til þess bær að takast á við skuldbindingar sínar, og með svipað gjaldþol og önnur félög á Norðurlöndum. En þá trumpast þeir sem eru í sviðsljósinu og saka hóp manna um að »láta greipar sópa um bótasjóðina«. „Tryggingafélögin láta eins og þau eigi þessa sjóði en það erum auðvitað við sem eigum þá“ sagði jafnvel þingmaður, algerlega út í loftið, svona til viðbótar við gífuryrði annarra. Órökstuddu dylgjurnar og rangfærslurnar sem trumpinu fylgja bera hins vegar árangur hér á landi eins og vestan hafs.
Ríkið verður af hundraða milljóna króna skatttekjum og arðgreiðslu og sjóðsfélagar lífeyrissjóðanna arði sem nú verður áfram notaður í stöðutökur á verðbréfamörkuðum með ógagnsæjum hætti frá sjónarhóli sjóðsfélaga. Trumpið gætir ekki hagsmuna neinna nema þess sem trumpast.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. mars 2016.

Previous
Previous

Skylda að leysa vandann

Next
Next

Áratugur án ávinnings