Örlög 10 þúsund kallsins

Boðuð hefur verið útgáfa á peningaseðli að nafnvirði 10 þúsund krónur. Engu er líkara en að stjórnvöld telji að ráðstöfunartekjur heimila hafi almennt aukist og þörf sé á verðmeiri seðlum til þæginda. Stjórnvöldum til umhugsunar leyfi ég mér að halda því fram að hinn almenni maður hafi nægt pláss í veski sínu þótt hann þurfi að geyma afganginn um hver mánaðamót í smærri einingum en 10 þúsund króna seðlum.10kweb464px1Með hækkun virðisaukaskatts, tekjuskatts einstaklinga og tryggingagjalds undanfarin misseri hefur norræna velferðarstjórnin ekki aðeins hækkað skatta sem voru háir fyrir heldur einnig aukið mjög við þau jaðaráhrif sem voru í skatta- og bótakerfinu. Með jaðaráhrifum er átt við þau áhrif sem skatta- og bótakerfið hefur á síðustu krónurnar sem maður aflar sér í hverjum mánuði. Þá hafa menn þegar nýtt útskatt sinn til frádráttar í virðisaukaskattskerfinu og fullnýtt persónuafslátt sinn en verða engu að síður fyrir fullri skerðingu barna- og vaxtabóta. Líkt og myndin sem fylgir þessari grein ber með sér geta menn lent í því að auka ráðstöfunartekjur sínar aðeins um 2.549 krónur við það að selja út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur. Þetta á við fyrirvinnu á stóru og nokkuð skuldugu heimili þar sem maki er tekjulaus. Börnin eru fjögur og húsnæðisskuldir um 20 milljónir. Fyrirvinna heimilisins vinnur mikið en bætir á sig vinnu til dæmis um helgar. Myndin sýnir niðurstöðuna. Aðeins rúm 25% standa eftir af hinni útseldu vinnu.Dæmi má einnig taka af foreldrum sem báðir eru með meðaltekjur. Þau lenda ekki í hæsta skattþrepi tekjuskatts og greiða því „aðeins“ 40,24% skatt af hverri viðbótarkrónu sem þau afla. Engu að síður hefur hækkun skatta og tryggingargjalds leitt til þess að aðeins standa eftir rúm 29% hinnar seldu vinnu. Forsendur þessara útreikninga minna má finna á heimasíðu minni, www.sigridur.is.Það kann þó að vera að ég hafi misskilið tilganginn með þessari nýju seðlaútgáfu. Hún er líklega hugsuð til þess að það gangi sem greiðlegast að taka skattana af fólki.Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2012.

Previous
Previous

Leifur heppni og tollarnir

Next
Next

10 þúsund kall handa hverjum?