Skylda að leysa vandann

mbl2015_04_10.png

Nýverið kom í ljós að forsætisráðherra átti sameiginlega hagsmuni með kröfuhöfum slitabúa föllnu bankanna, án þess að hafa upplýst um það eins og almennir mannasiðir í það minnsta bjóða. Ekki bætti úr skák að hagsmunirnir voru geymdir á bresku Jómfrúreyjum, þótt ekkert liggi fyrir um að það atriði hafi út af fyrir sig verið brot á lögum og reglum. Það er auðvitað ekki til marks um yfirvegaða umræðu að staðsetning félagsins sem hélt utan um hagsmunina varð fljótt aðalatriði frétta en hinn augljósi hagsmunaárekstur aukaatriði. Allt að einu hófst atburðarás sem ætla mætti að hefði lokið í vikunni sem leið með afsögn forsætisráðherrans og nýju ráðuneyti Sigurðar Inga Jónssonar.Þrátt fyrir afsögn forsætisráðherrans eru hins vegar sumir enn staðráðnir í að gera sér mat úr málinu með því að yfirfæra umræðu og tilfinningar fólks gagnvart forsætisráðherra yfir á aðra ráðherra í ríkisstjórninni og jafnvel alþingi allt með kröfu um kosningar. Hví á til dæmis Ögmundur kollegi minn í þessu Moggaplássi að missa umboð sitt sem þingmaður vegna mála fyrrverandi forsætisráðherra?Aflandseyjar halda áfram að vera aðalatriðið í kröfugerð um afsögn fjármálaráðherra og innanríkisráðherra og auðvitað kosningar til alþingis, helst áður en fjölmiðlum þóknast að birta nöfn þeirra 600 Íslendinga sem sagt er að finna megi í skjölum. Hvorugur þessara ráðherra hefur hins vegar tengsl við aflandseyjar. Fjármálaráðherra átti í fasteignaviðskiptum erlendis sem lauk eins og annarri þátttöku hans í viðskiptum árið 2009 þegar hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins. Það var jafnframt mörgum árum áður en hann varð ráðherra. „Mál“ innanríkisráðherra er einnig gamalt og svo smátt að jafnvel ég get ekki lýst því.Þingkosningar verða í síðasta lagi í apríl á næsta ári. Þær verða þá fjórðu þingkosningarnar á tæpum 9 árum. Alls munu á þessum 9 árum hafa farið fram 10 almennar atkvæðagreiðslur, til þings, sveitarstjórna, embættis forseta og um Icesave. Auk þess var kosið til stjórnlagaþings en hæstiréttur úrskurðaði þær kosningar ógildar.Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að stjórnarmeirihluti á hverjum tíma taki tillit til málefnalegra sjónarmiða sem kynnt eru. En lýðræðinu fylgja réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa til að takast á við allan þann vanda sem kann að kom upp á meðan umboð þeirra varir. Það er auðvitað engri ríkisstjórn auðvelt að forsætisráðherrann þurfi að víkja. En úr þeim vanda var greitt á nokkrum dögum. Hér er ekki stjórnarkreppa heldur þvert á móti. Hér situr nú ríkisstjórn sem nýtur mikils meirihluta lýðræðislega kjörinna þingmanna.

Lýðræðinu fylgja réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa til að takast á við allan þann vanda sem kann að kom upp á meðan umboð þeirra varir.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins helgina 10. apríl 2016.

Previous
Previous

Hvar eru svörin?

Next
Next

Menn trumpast víða - hér vegna tryggingarfélaga