Tekjur fárra en kostnaður allra

Tökum sem dæmi Óþörfu ríkisstofnunina ohf. Þar vinna 200 manns á sviði sem eitt sinn var einokað af ríkinu en hin síðari ár hafa einkafyrirtæki reynt fyrir sér á þessu sviði þótt ríkisstofnunin hafi margskonar forgjöf. Er mögulegt fyrir meirihluta á alþingi að leggja þessa stofnun niður? Ég efast um það.Um leið og það spyrst út að menn ætli sér að leggja stofnunina niður hefja flestir starfsmennirnir 200 og nánustu ættingjar þeirra sókn gegn því. Þar eru þegar um eitt þúsund manns sem eru tilbúnir að hamast gegn því að fyrirvinna heimilisins missi vinnuna hjá þessari tilteknu stofnun. Það eru bara mannleg viðbrögð þótt þau kunni að bera vott um skammsýni og vantrú á að betri störf bjóðist utan stofnunarinnar. Þessir þúsund hamast á bloggum og samfélagsmiðlum um mikilvægi hinnar óþörfu stofnunar. Aðrir ríkisstarfsmenn sjá sér jafnvel óbeinan hag í því að taka undir. Svo eru að sjálfsögðu ræstar hinar vel fjármögnuðu áróðursvélar stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem munu auk almennra andmæla gegn því að svo mikilvæg óþörf stofnun sé lögð niður og hóta alls kyns málaferlum vegna réttinda starfsfólks.Hin óþarfa stofnun er vitaskuld staðsett í einhverju sveitarfélagi. Þar eru sömu flokkar við stjórn og eru í meirihluta á þingi. En minnihlutaflokkarnir í bæjarstjórninni leggja fram tillögu um að bæjarstjórnin mótmæli því harðlega að opinberum störfum í bænum sé fækkað. Það er skammt í næstu bæjarstjórnarkosningar svo meirihlutaflokkarnir þora ekki annað en að samþykkja mótmæli gegn því sem sömu flokkar ætla sér að gera á þingi.Skattgreiðendur, þeir sem bera kostnaðinn af hinni óþörfu ríkisstofnun, nenna ekki að setja sig inn í málið. Þeir greiða ekki nema nokkur þúsund krónur hver til stofnunarinnar og hvað endast menn lengi í baráttunni fyrir slíkri fjárhæð?Svo hefst málþófið í þinginu.Þéttir hagsmunir starfsmanna Óþörfu ríkisstofnunarinnar ohf. munu að öllum líkindum vega þyngra en dreifðir hagsmunir skattgreiðenda. Hætt verður við að leggja stofnunina niður með þeim rökum að hún hafi tekið að sér ný og aukin verkefni sem fylgi aukaframlag á fjárlögum.

>>Ríkisstofnanir eru ríflega 200 talsins og fer því miður lítið fækkandi.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25. janúar 2015.

Previous
Previous

Frelsi fasteignaeigandans

Next
Next

Píslarganga stjórnmálamanns