Útúrsnúningar fela ekki tjónið

shutterstock_1290455224-2.jpg

Áætla má að á síðasta ári hafi um 20 milljónir lítra af lífolíum til íblöndunar í hefðbundið eldsneyti verið fluttir til landsins. Þetta eldsneyti er einkum unnið úr matjurtum á borð við hveiti, maís, repju og pálma.Þetta lífeldsneyti er dýrara í innkaupum og með lægra orkuinnihald en hefðbundið eldsneyti. Eyðsla í bílvélum eykst, ferðum fjölgar á bensínstöðvar, innflutningur eldsneytis eykst og gjaldeyrir flæðir úr landi. Ríkissjóður hefur lagt þessum óþarfa innflutningi til um 7 milljarða króna með skattaívilnunum síðustu 5 ár. Þessar skatttekjur voru áður ætlaðar í vegagerð hér innanlands.

Engin skylda, bara þvingun

Í grein hér í blaðinu í gær [Morgunblaðinu, 2. júlí 2020] hélt sérfræðingur á Orkustofnun því fram að engin skylda sé til þessarar íblöndunar og þar með innflutnings. Í lögum nr. 40/2013 (innleiðing á ESB-reglum) er þó skýrt kveðið á um skyldu söluaðila eldsneytis til að 5% þess sé af endurnýjanlegum uppruna. Fullyrðing um annað er útúrsnúningur. Söluaðilum eldsneytis hér á landi hefur því verið nauðugur einn kostur að flytja inn lífolíur til íblöndunar undanfarin ár. Rafbílar sem hér eru komnir á göturnar telja ekki upp í þessa skyldu því þeir eru eðlilega hlaðnir við heimahús og vinnustaði en ekki á bensínstöðvum. Tölurnar sem sérfræðingurinn nefnir í grein sinni sýna það svart á hvítu að rafbílavæðingin hefur ekki nýst til að draga úr innflutningi lífeldsneytisins undanfarin ár.

ESB-túlkun á íslenskum lögum

Sérfræðingur Orkustofnunar vísar í grein sinni í tilskipun ESB um að ríki skuli ná 10% orkuhlutfalli endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum árið 2020. En þetta markmið hefur ekki verið leitt í íslensk lög og hefur því ekkert gildi hér, sem betur fer.Það er raunar sérstakt áhyggjuefni að starfsmenn opinberra stofnana skuli vísa í tilskipanir og reglugerðir ESB til framsækinna skýringa á íslenskum lögum og reglum. Það er engu líkara en þeir séu komnir inn í sambandið í huganum. Annað dæmi um þetta birtist í nýlegri túlkun Umhverfisstofnunar á reglugerð 960/2016. Í reglugerðinni er kveðið á um skyldu seljenda eldsneytis til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 6% »eigi síðar en 31. desember 2020.« Í lok desember 2019 tilkynnti UST að stofnunin telji að »eigi síðar en 31. desember 2020« þýði í raun frá og með 1. janúar 2020. Þvert á það sem stofnunin hafði áður sagt.Skýringarnar UST á því að 31. desember 2020 þýði í raun 1. janúar 2020 voru þær að þannig væri þetta túlkað hjá Evrópusambandinu! Þessi dagavilla UST mun leiða til aukins innflutnings lífeldsneytis á þessu ári frá því sem ella hefði verið með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir ríkissjóð. Og aftur teljast rafbílarnir ekki með.

Í ljós reynslunnar

Sjálfsagt var það ekki markmiðið með reglugerð 960/2016 eða lögum nr. 40/2013 að valda milljarðatjóni fyrir Ísland þótt við því hafi verið varað. Menn sáu ekki endilega fyrir að rafbílar gætu náð fótfestu hér. En nú ættu menn að hafa lært af reynslunni og ekkert að vera því til fyrirstöðu að breyta lögum á þann veg að óþarft verði fyrir okkur, heimsmethafana í framleiðslu endurnýjanlegrar orku, að flytja inn dýra endurnýjanlega orku.

Tölurnar sem sérfræðingurinn nefnir sýna það svart á hvítu að rafbílavæðingin hefur ekki nýst til að draga úr innflutningi lífeldsneytis.

Myndin hér að ofan er frá Shutterstock og sýnir umhverfissinna í Brussel í fyrra skora á orku- og loftslagsstjóra ESB að breyta reglum sambandsins sem kveða á um íblöndun lífeldsneytis. Umhverfissinnar hafa snúist gegn lífeldsneyti þegar áhrifin af framleiðslu þess á skóga, votlendi, dýralíf og fæðuöryggi hafa komið í ljós.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2020.

Previous
Previous

Landamæraaðgerðir - Bítið 17. ágúst 2020

Next
Next

Evrópureglur telja rafbílana ekki með