Menu

Þurfa Íslendingar að borga?

08/02/2010 - Greinasafn

Áhugaverð og einstök staða er komin upp í samskiptum íslenskra stjórnvalda annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda hins vegar í kjölfar algers bankahruns á Íslandi í október 2008. Bretar og Hollendingar hafa haldið því fram að íslensk stjórnvöld beri fjárhagsábyrgð á internetinnlánsreikningum sem hinn íslenski banki Landsbanki rak í löndunum tveimur, svokölluðum Icesave reikningum. Bretar og Hollendingar ákváðu sjálfir að greiða innistæðueigendum innistæður sínar við gjaldþrot bankans. Nú vilja þeir að Ísland endurgreiði þeim féð að fullu. Með svokölluðu Icesave samkomulagi féllst ríkisstjórn Íslands á kröfur Breta og Hollendinga, með fyrirvara um samþykki alþingis á slíkum fjárhagsskuldbindingum.
Alþingi samþykkti síðastliðið sumar lög um ríkisábyrgð á lánum breska ríkisins og því hollenska til íslenska ríkisns samkvæmt nefndu Icesave samkomulagi. Samkvæmt lögunum var ríkisábyrgðin þó bundin nokkrum mikilvægum skilyrðum svo sem um hagvöxt á Íslandi og gildistíma. Að kröfu Breta og Hollendinga, sem sættu sig ekki við skilyrðin, breytti alþingi lögunum þann 30. desember síðastliðinn þannig að skilyrðin voru að mestu felld niður og er ríkisábyrgðin því afar víðtæk og getur leitt til meira en 3,5 milljarða evru skuldar íslensku þjóðarinnar við Bretland og Holland um ótilgreindan tíma. Þetta jafngildir helmingi af GDP Íslands og er um 11.000 evrur á mann. Myndu skattgreiðendur annarra Evrópuþjóða samþykkja slíkar álögur vegna skulda einkafyrirtækis án þess að fyrir liggi skýr lagaskylda eða dómsniðurstaða um að þeir eigi að gera það?
Forseti Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, tók þá ákvörðun í byrjun árs að ósk fjórðungs þjóðarinnar að staðfesta ekki hin nýju lög um víðtæku ríkisábyrgðina vegna Icesave. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands þarf því að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laganna. Það er mikilvægt að Íslendingar felli nú úr gildi hin nýju lög í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og hin svokallaða Icesavedeila fari aftur á byrjunarreit. Þar þarf að spyrja 3,5 milljarða evru spurningarinnar: Þurfa íslenskir skattgreiðendur yfirleitt að greiða fyrir Icesavereikinga Landsbankans?
Á Íslandi, eins og í öðrum löndum Evrópu, hefur verið starfræktur innstæðutryggingasjóður í samræmi við tilskipun nr. 94/19 frá 30 maí 1994. Á Íslandi er hann fjármagnaður með reglubundnum fjárframlögum fjármálastofnanna. Sjóðurinn er sjálfstæð stofnun og er ætlað að mæta fjárhagsvanda fjármálastofnanna en var fráleitt ætlað að takast á við kerfisbundið allsherjarhrun fjármálamarkaða eins og varð á Íslandi. Orðalag tilskipunar ESB er til marks um þetta. Þá hafa Jean-Claude Trichet presidente del Banco Central Europeo og Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands sagt það opinberlega að reglur um innstæðutryggingasjóði væru ekki hannaðar fyrir allsherjarhrun bankakerfis.
Íslendingar hafa alltaf haldið því fram að þeir muni standa við allar sínar skuldbindingar sem á þeim hvíla samkvæmt reglum EES. Samkvæmt reglum EES takmarkast sú ábyrgð við þá fjármuni sem eru í innstæðutryggingasjóðnum. Ekki er gert ráð fyrir ríkisábyrgð á sjóðnum eða að ríkið komi að sjóðnum á seinni stigum. Slíkt væri enda í andstöðu við ákvæði Evrópuréttarins um bann við ríkisábyrgð á einkarekstri. Hinn íslenski innstæðutryggingasjóður er nú uppurinn. Íslenskir skattgreiðendur bera enga ábyrgð á að fylla hann aftur til þess að gera upp við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga.
Það er í lokin rétt að minnast þess að hið algera hrun íslenska fjármálakerfisins má að einhverju leyti rekja til ósanngjarnrar meðferðar breskrar stjórnvalda á íslensku bönkunum í Bretlandi rétt áður en hrunið varð, er þau settu íslensku bankana og íslenska ríkið í heild á lista sinn yfir samtök og þjóðir í hryðjuverkastarfsemi, með Al-Qaeda. Var það fordæmalaus aðgerð stórveldis í garð smáríkis sem ásamt Bretum var eitt stofnríkja OTAN fyrir 60 árum. Mistökin sem íslensk stjórnvöld hafa gert í kjölfar hrunsins er að ganga til samninga um hina svokölluð Icesave skuld í stað þess að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort íslenska ríkinu beri ábyrgð á innlánstöpum einkabankans í Bretlandi og Hollandi. Bretar og Hollendingar hafa ætíð lagst gegn því að dómstólar fjalli um málið. Af hverju skyldi það nú vera?
Höfundur er lögmaður, formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins og varaþingmaður.
Greinin birtist í Cinco días, viðskiptadagblaði á Spáni, 8. febrúar 2010.