„Hér varð náttúrlega hrun“

Fréttaritari Ríkisútvarpsins í London tók langt viðtal við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, fyrir Spegilinn í síðustu viku, en fréttaritarinn hefur virst vera nokkur áhugamaður um ákærur eftir bankahrun.Meðal þess sem fréttaritarinn spurði um var hvort upptökur af einkasímtölum fólks sem sérstakur saksóknari hefði hlerað yrðu birtar á netinu.Nú er líklega eðlilegast að afgreiða þessa spurningu sem hverja aðra vitleysu sem ekki verðskuldi neina umfjöllun. En hún má einnig vera dæmi um hvernig bankahrunið getur enn ruglað fólk í ríminu og látið það missa sjónar á svo mörgu sem það eflaust myndi skilja mætavel við allar aðrar aðstæður.Auðvitað töpuðu margir miklu við bankahrunið. Sumir vinnunni, margir hlutabréfunum sínum, sumir sparnaði sínum. Margir töpuðu á falli gjaldmiðilsins og svo framvegis. Ríkið ákvað að ábyrgjast innstæður og að endurreisa bankana. Allur þorri manna hefur fundið einhver áhrif bankahrunsins. En raunar má segja svipaða sögu um uppganginn á árunum á undan. Allur þorri manna fann fyrir honum á einhvern hátt, en það er önnur saga.Bankahrunið hafði áhrif á marga. En þjóðfélagið hrundi ekki, þótt mörgum, og þá líklega ekki síst þeim sem fyrir bankahrun hefðu þegið veigameira hlutverk í þjóðfélaginu, hefði eflaust þótt spennandi að það hefði gerst. Bankahrunið kallar ekki á nýja stjórnarskrá, nýtt flokkakerfi, ný kosningalög og alls ekki á nýjar grundvallarreglur í þjóðfélaginu. Bankahrunið kallar ekki á afnám eignarréttar, samningafrelsis, skoðanafrelsis eða annars þess sem er í raun óaðskiljanlegur þáttur frjáls þjóðfélags. Og bankahrunið er nákvæmlega engin afsökun fyrir þá sem vilja helst ekki að aðrir menn búi í réttarríki.Og svo aftur sé vikið að spurningu fréttaritarans um hvort upptökur af einkasímtölum fólks verði settar á netið, þá blasir auðvitað við að það verður ekki gert. Menn hafa rannsakað alvarleg mál áður en bankahrunið varð. Menn hafa rannsakað morð, líkamsárásir, nauðganir og flesta glæpi aðra og aldrei nokkurn tíma hefur nokkrum manni dottið í hug að upptökur hleraðra símtala yrðu birtar á netinu. Internetinu! En þegar kemur að bankahruninu þá er stundum eins og ákafinn taki öll völd og jarðtengingin hverfi. Með tilvísun til „hrunsins“ hafa margir reynt að réttlæta alls kyns undarlegheit. Bankahrunið er auðvitað áhugavert og sumir hafa meira að segja hugsað um það þindarlaust í tæp fjögur ár, en það breytir bara ekki grundvallarreglum í landinu. Þær standa allar óhaggaðar.Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2012.

Previous
Previous

„Hér varð náttúrlega hrun“

Next
Next

Hóf í skattheimtu