Menu

Kallað eftir lausnum!

06/11/2020 - Fréttir
Kallað eftir lausnum!

Heilbrigðisráðherra flutti munnlega skýrslu um sóttvarnaraðgerðir á þingi í gær og sat þar fyrir svörum um málið í fyrsta sinn í þá 9 mánuði sem C19 hefur vaðið hér uppi. Sú jákvæða nýbreytni var tekin upp að leyfð voru andsvör sem ráðherra svaraði. Umræðurnar voru hins vegar takmarkaðar við einn þingmann úr hverjum þingflokki en þetta var ágætis upphaf á aðkomu alþingis að þessum málum.

Ég hef leyft mér að halda á lofti því grundvallarsjónarmiði sem lýðræðsríki byggja á að skerðing á grundvallarréttindum borgaranna verði ekki nema með afdráttarlausri lagasetningu þar um en ekki reglusetningum stjórnvalda, nema í brýnum neyðartilvikum. Mér finnst það umræðunnar virði að menn velti því fyrir sér hvort að gildandi reglugerð, sem meðal annars leggur blátt bann við hvers konar íþróttum innanhúss sem utan, barna jafnt sem fullorðinna, standist kröfu þessa grundvallarsjónarmiðs réttarríkins. Sér í lagi í því ástandi sem nú ríkir 9 mánuðum eftir fyrstu þekktu tilvik veirunnar hér á landi.

Heilbrigðisráðherra setti upp mikinn snúð gagnvart þingmönnum sem bentu á meðal annars þetta og á hið augljósa að þingið hefur ekki fengið upplýsingar um forsendur sóttvarnaaðgerða, markmið þeirra eða aðfleiðingar. Heilbrigðsráðherra notaði svo síðara svar sitt við andsvari mínu til þess að kalla eftir hugmyndum frá mér um aðgerðir gegn C19, vitandi það að ekki hafði ég tækifærið til að svara (enda ekki ætlunin með andsvörum þingmanna að ráðherrar noti dagskrárliðinn til þess að spyrja þingmenn).

Þá sigldi ráðherra í kjölfar þeirra sem ekki hafa treysta sér í málefnalega umræðu um sóttvarnaaðgerðir og valdmörk stjórnvalda almennt og með herópinu sem einkennt hefur andrúmsloftið „fylgjum sérfræðingunum.” Vandinn við þessa herkænsku ráðherrans er að „sérfræðingunum“ ber ekki saman um það hvar við séum, hvert skuli halda og hvernig .

Ég mun ekki liggja á liði mínu þegar kemur að því að leita lausna í þessu ófremdarástandi sem nú ríkir og mun hér eftir sem hingað til styðja skynsamlegar aðgerðir í sóttvörnum. Forsenda þess að ég og aðrir þingmenn geti orðið að liði er hins vegar þingleg meðferð mála með tilheyrandi nauðsynlegum upplýsingum, skoðanaskiptum og öflunar sjónarmiða úr öllum áttum. Heilbrigðisráðherra ætti að fagna slíkri aðkomu þingsins.

Færsla á Facebook 6. nóvember 2020.