Menu

Ábyrgð Íslendinga á gölluðu kerfi ESB

11/03/2011 - Greinasafn

Andrew Spiers, sérlegur ráðgjafi samninganefndar Íslands í Icesavedeilunni, ítrekaði um daginn á fundi hjá Arion banka það sem áður hafði komið fram að Evrópusambandið væri andvígt því að Icesave-deilan færi fyrir dómstóla. Og skyldi engan undra. Í dómsmáli yrðu tvær niðurstöður mögulegar. Annaðhvort yrði íslenska ríkið ábyrgt fyrir Icesave-innstæðunum í Bretlandi og Hollandi eða ekki. Hvorug niðurstaðan hugnast ESB.
Dómsniðurstaða sem staðfesti ríkisábyrgð á Icesave-innstæðum myndi virka sem opinn tékki frá skattgreiðendum til allra evrópskra banka. Á slíka ríkisábyrgð fellst ESB ekki eins og framkvæmdastjórn sambandsins hefur lýst yfir og æ fleiri taka nú undir um allan heim.

Dómsniðurstaða sem staðfesti að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum umfram eignir Tryggingasjóðs innstæðueigenda myndi opinbera veikleika innstæðutryggingakerfa allra Evrópulandanna. Hvorug dómsniðurstaðan hugnast ESB, skiljanlega. Í því ljósi reynir ESB því nú hindra að deilan verði leyst fyrir dómstólum. Það eitt að ágreiningur um ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfinu á Íslandi sé borinn fyrir dómstóla dregur sjálfkrafa úr trúverðugleika innstæðutryggingakerfa í öðrum löndum Evrópu.

Í þágu þessara sjónarmiða ESB er Íslendingum, nú með Icesave III, ekki bara ætlað að bera ábyrgð á hinu íslenska innstæðutryggingakerfi heldur öllu hinu evrópska. Með Icesave-samningnum er íslenskum skattgreiðendum einum ætlað að bera kostnað af gölluðu regluverki ESB um innstæðutryggingar sem gilt hefur í öllum ríkjum Evrópu. Það er bæði löglaust og ósanngjarnt og þess vegna er rétt að hafna Icesave-lögunum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2011.