Að fóta sig í hagsæld

Capture.png

Það segir sig sjálft að það getur verið erfitt að vera stjórnmálamaður þegar illa árar. Kröfur um aðgerðir dynja á stjórnmálamönnum þegar hægist á hjólum efnahagslífsins. Um leið er engum kennt um nema stjórnmálamönnunum. Fyrirtæki í einkaeigu fara jafnvel ekki á hausinn í niðursveiflu án þess að stjórnmálamenn séu dregnir til ábyrgðar. Þið þekkið dæmin. En hvað með þegar vel gengur?Jákvæð teikn í efnahagslífi virðast vera sjálfstætt vandamál í umræðunni. Velgengninni er ekki hallmælt með beinum hætti en þeim mun meira er fjallað um þensluna. Orðið sjálft ber feigðina í sér. Vei þeim sem gleðst yfir góðu gengi. Þenslan ógnar stöðugleika, er sagt. Það getur verið erfitt fyrir stjórnmálamenn að átta sig á hvort æskilegt er að standa eða sitja undir þessum skilaboðum. Þess utan þá reynist stjórnmálamönnum oft erfitt að fóta sig í hagsældinni og þeir missa sjónar á þeim takmörkunum sem stjórnmálunum eru settar. Fimm flokkar hafa reynt í dágóðan tíma að komast að samkomulagi um ríkisfjármálin. Það hefur ekki bara mistekist í tvígang heldur virðist þeim ómögulegt að ná samkomulagi um hvað það er sem þeir eru ósammála um. Allir þó sammála um að eyða meira af peningum landsmanna.Nú liggur fyrir að skatttekjur ríkisins á þessu ári verða um 30 milljörðum króna meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir skattalækkanir. Aðrar tekjur ríkisins verða líka meiri en gert var ráð fyrir. Það á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér að auka skatttekjur ríkisins. Skatttekjum er ætlað að standa undir verkefnum sem við erum sammála um að hið opinbera sinni og eiga ekki að vera meiri en svo. En nú ber svo við að sumir leggjast gegn því að lækka skatta í því góða árferði sem ríkir. Fyrir alþingi liggur jafnvel tillaga um að hækka skatta á áfengi og eldsneyti til þess að »slá á þensluna«. Er það nú ekki harla ólíklegt að áfengi og eldsneyti orsaki þenslu hér á landi? Nær væri að hafa áhyggjur af hækkun á vísitölu neysluverðs sem þessari hagstjórnarskattahækkun fylgir.Skattalækkun eykur á þenslu er sagt. En þá líta menn hjá því að þensla í efnahagslífinu hefur þá hliðarverkun að ríkið fær meiri tekjur að öðru óbreyttu eins og dæmin sýna einmitt nú um stundir. Þessu ættu unnendur ríkistekna reyndar að fagna. Ef hins vegar opinberir embættismenn og skjólstæðingar þeirra, stjórnmálamennirnir, hræðast þenslu og tilheyrandi verðbólgu þá er ríkinu í lófa lagið að halda meira eftir af þeim tekjum sem það fær af aukinni þenslu og stemma þannig stigu við eigin þenslu. Ríkisfjármálin eru í höndum stjórnmálamanna. Ábyrgðinni verður ekki varpað yfir á neytendur, áfengis eða annars.

Fimm flokkum hefur ekki tekist að sammælast um neitt nema meiri skatta.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. desember 2016 - saa@althingi.is

Previous
Previous

Þessi ríkisstjórn

Next
Next

Neytendur eru besta vörnin