Menu

Að loknu starfsmannaviðtali

14/02/2016 - Fréttir, Greinasafn

Við þingmenn höfum nýtt þessa kjördæmaviku til þess að hitta kjósendur. Þessar samverustundir með kjósendum eru ekki ósvipaðar starfsmannaviðtölum í fyrirtækjum þar sem starfsmenn fá álit vinnuveitanda á unnum störfum, ábendingar um það sem betur má fara og hugmyndir um næstu skref. Nokkur eðlismunur er auðvitað til staðar. Vinnuveitandi í fyrirtæki hefur alla jafna góða sýn yfir allan starfsvettvanginn. Kjósendur hafa fæstir þannig yfirsýn. Starfssvið þingmanns spannar flesta kima þjóðlífsins, því miður. Ábendingar frá kjósendum taka hins vegar oft bara mið af aðstæðum þeirra sjálfra, þekkingu hans á viðkomandi sviði (sem gjarnan er mjög mikil) og áhuga hans á tilteknu viðfangsefni. Þessi sértæka nálgun kjósandans dregur þó ekki úr mikilvægi starfsmannaviðtalsins. Það er jú hlutverk stjórnmálamannsins að púsla sjónarmiðunum saman.
Í kjördæmavikunni óskuðu kjósendur eftir upplýsingum um afgreidd mál á þessu kjörtímabili. Ég rifjaði upp nokkur dæmi. Afnám stimpilgjalds á skuldaskjölum, afnám vörugjalda og tolla, samninga við slitabúin um stöðugleikaframlag af þeirra hálfu í ríkissjóð, lækkun skulda ríkissjóðs um 10% bara á síðasta ári, lækkun tekjuskatts og almenns virðisaukaskatts. Ég greindi ekkert nema almenna ánægju með þennan árangur þótt vissulega finnist einhverjum ekki nóg að gert.

Hvað næstu skref varðar vantar ekki ábendingar frá kjósendum og það er rétt af þingmanni að leggja við hlustir. Nokkur dæmi. Aldraðir segja brýnt að draga úr tekjutengingu bóta almannatrygginga. Eldhugi í tæknigeiranum leggur til skattaafslátt til handa þeim sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Maður sem var hugsanlega að taka húsið sitt í gegn spyr hvort ekki eigi að koma aftur í gagnið átakinu „Allir vinna“ sem fólst í endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði. Ungt par vill fá að nýta skattfrjálsan lífeyrissparnað sinn til íbúðarkaupa. Allar eiga þessar hugmyndir það sameiginlegt að miða að því að auka ráðstöfunarfé einstaklinga og lögaðila. Gallinn er sá að engin þeirra myndi leiða til þess svo nokkru nemi. Sértækar aðgerðir sem lausn á tilteknum vanda, t.d. skattundanskotum einnar starfstéttar, getur jafnvel búið til sama vandamál annars staðar þar sem aðgerðarinnar nýtur ekki við.

Látum ekki trén skyggja á skóginn. Aukum ráðstöfunartekjur allra. Lækkum virðisaukaskatt, afnemum jaðarskattana sem felast í tekjuskattsþrepunum og lækkum tryggingargjald fyrirtækja. Gerum fleirum kleift að standa undir skuldbindingunum sínum, ekki bara öldruðum, ungum og karlkyns iðnaðarmönnum.

Aukum ráðstöfunartekjur allra og gerum fleirum kleift að standa undir skuldbindingum sínum.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14. febrúar 2016.