Menu

Að loknum kosningum, hvað þá?

23/10/2016 - Fréttir
Að loknum kosningum, hvað þá?

Kosningabaráttan er um margt óvenjuleg. Tímasetningin er önnur en við eigum að venjast og aðdragandinn einnig. Hvort tveggja hefur leitt til stuttrar kosningabaráttu. Minna er um fundi framboðanna sjálfra en þeim mun meira um fundi sem alls kyns hagsmunasamtök stefna frambjóðendum á. Það hversu stutt baráttan er hefur að mínu mati leitt til þess að geðshræringin sem jafnan fylgir er meiri en oft áður. Þá er það orðið sérstakt baráttumál sumra flokka að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar.

Það er ekki innantómur frasi að ganga óbundinn til kosninga. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn nú sem fyrr. Það skiptir nefnilega máli að koma vel undan kosningum. Það gera þeir sem hafa ekki útilokað fyrir fram samstarf við aðra. Á þeim sem bjóða fram í kosningum hvílir sú ábyrgð að stuðla að því að starfhæf ríkisstjórn verði mynduð að kosningum loknum. Á þessu kjörtímabili höfum við mörg dæmi um þverpólitíska sátt í alls kyns óskyldum málum. Það er þess vegna meira en lítið undarlegt að hlusta á forystumenn nokkurra vinstriflokka þvertaka fyrir samstarf við stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu, Sjálfstæðisflokkinn. Bera menn þjóðarhag fyrir brjósti sem svona tala?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð frábærum árangri í efnahagsmálum á þessu þriggja ára kjörtímabili. Alveg ótrúlegum. Ýmsir skattar hafa lækkað þótt enn sé talsvert í land með að allar þær skattahækkanir sem dundu á landsmönnum í tíð vinstristjórnarinnar hafi verið felldar niður. Nú telja margir sig reiðubúna að taka við stjórnartaumunum og auka ríkisútgjöld og forgangsraða í þágu allra brýnu málanna. Sum framboð ætla að forgangsraða í þágu heilbrigðismála en þegar nánar er að gætt ætla þau líka að forgangsraða í þágu umhverfisins og í þágu háhraðatengingar, svo dæmi séu tekin af stefnuskrá VG en sem önnur framboð geta trúlega líka kvittað undir. Vinstriflokkarnir geta líka komið sér saman um fjármögnun alls þessa. Viðreisn hefur til dæmis haft orð á upptöku »grænna skatta«, sem eru auðvitað miklu léttbærari skattar en hinir venjulegu skattar sem við höfum þurft að búa við hingað til, eða það á að minnsta kosti að hljóma þannig.

Ég hef trú á því að menn vilji frelsi fremur en helsi, vilji ábyrga stjórn ríkisfjármála fremur en óútfyllta tékka þótt stílaðir séu á brýn mál, vilji gagnsæi við skattheimtu en ekki pönk og yfirlæti gagnvart einstökum hópum og vilji umfram allt stöðugleika til langs tíma. Við þetta fólk vil ég segja að vilji það sjá Sjálfstæðisflokkinn í næstu ríkisstjórn til þess að halda áfram á þeirri góðu leið sem við erum á verður Sjálfstæðisflokkurinn að fá umboð til þess í kosningunum eftir viku.

Vilji menn að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn verða menn að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðinu 23. október 2016. – saa@althingi.is