Menu

Brexit – hvar liggja tækifærin?

14/07/2016 - Fréttir, Greinasafn
Brexit – hvar liggja tækifærin?

Þótt skoðanakannanir hafi sýnt verulega andstöðu almennings í Bretlandi við áframhaldandi veru í ESB koma úrslit kosninganna óvart. Tregðulögmálið vegur nefnilega þungt í kosningum almennt. Að þessu sinni lét meirihlutinn sig hafa það þrátt fyrir mikinn hræðsluáróður stuðningsmanna ESB. Aldrei hafa fleiri Bretar sammælst um nokkurt mál eða flokk í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einmitt í því ljósi eru umhugsunarverð viðbrögð manna við niðurstöðunni.

Þeir sem töluðu fyrir útgöngu úr ESB (Brexitliðar) hafa flestir sýnt mikla stillingu og lagt áherslu á að næstu skref verði tekin að vandlega yfirlögðu ráði. Fáir hafa nýtt niðurstöðu kosningarinnar í eigin pólitíska þágu. Mönnum er í mun að niðurstaðan leiði til fleiri tækifæra fyrir Bretland, ekki færri, betra Bretlands en ekki verra. Leiðirnar að þessu marki eru fleiri en ein og það vita Brexitliðar. Menn munu fara sér í engu óðslega.

Stuðningsmenn áframhaldandi veru Bretlands í ESB eru hins vegar orðnir eins og snúið roð í hundi gagnvart hinum lýðræðislegu kosningaúrslitum. Svo langt láta þeir skapið hlaupa með sig í gönur að þeirra helsta málsvörn eftir kosningarnar hefur verið sú að þeir kjósendur sem kusu með útgöngu hafi verið óskólagengnir og lágt launaðir. Hvaða máli skiptir það? Hlýtur lýðræðið ekki að vera eins og réttlætið, blint á hagsmuni þeirra sem í hlut eiga? Einn maður, eitt atkvæði? Eða eru menn í alvöru að tala fyrir nýrri útfærslu af misvægi atkvæða? Líklega hafa þessi sjónarmið verið sett fram í hita (eftir)leiksins. Verra er hins vegar að aðildarsinnar virðast ekki ætla að leggja neitt af mörkum við næstu skref. Engar tillögur eða hugmyndir um hvernig megi auka veg Bretlands eða samvinnu landa almennt. Þvert á móti virðist hinum tapsáru mikið í mun að Bretlandi séu settir afarkostir af ESB og að þeim verði hent út sem fyrst og alfarið á forsendum ESB. Menn eru beinlínis í hefndarhug, einkum forsvarsmenn ESB, en þar með láta þeir þó hagsmuni ESB-ríkjanna lönd og leið.

Það væri synd ef menn sæju ekki tækifærin sem blasa nú við, innan Bretlands sem utan. Bretland, sem er og verður efnahagslegt stórveldi, hefur nú tækifæri til að verða leiðandi í frjálsum viðskiptum á alþjóðavísu og óháð viðskiptahindrunum ESB, því sjálfskaparvíti. EFTA-ríkin eiga nú þegar að bjóða Bretland aftur inn í samstarfið, alveg óháð því hvort Bretland kunni í framhaldinu að hafa áhuga á samvinnu innan EES eða ekki. Síðast en ekki síst felast mikil tækifæri fyrir ESB í þessari niðurstöðu. ESB ætti að endurskoða annars vegar markmið samvinnu aðildarríkjanna og hins vegar stofnanir sínar.

Niðurstaða Brexit felur í sér tækifæri fyrir Bretland, Ísland og EFTA-ríkin og ekki síst ESB sjálft sem þarf að taka til í sínum ranni.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 3. júlí 2016. / saa@althingi.is