Menu

Ég um mig

08/03/2015 - Fréttir, Greinasafn
Ég um mig

Í vikunni sem leið kvað Evrópudómstóllinn upp dóm í málum sem vörðuðu virðisaukaskatt í Frakklandi og Lúxemborg. Löndin tvö hafa eins og mörg lönd lagt lægri virðisaukaskatt á prentaðar bækur en á nauðsynjavörur ýmiss konar. Í þessum dómsmálum var hins vegar fjallað um virðisaukaskatt á rafbækur en Frakkland og Holland hafa látið þær bera sama virðisaukaskatt og prentaðar bækur. Löndin tvö vildu með því gæta jafnræðis með prentuðum bókum og rafbókum og hvetja til rafbókavæðingar með því að leggja lægri skatt á rafbækur en aðrar vörur. Framkvæmdastjórn ESB var ósátt við þessa undanlátssemi við rafbækur og dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að afslátturinn á virðisaukaskatti væri brot á tilskipun ESB um samræmd virðisaukaskattskerfi í löndum ESB. Heimild væri fyrir lægra skattþrepi á prentuðum bókum en ekki rafbókum. Nú eru rafbókasalar ósáttir en aðrir bóksalar væntanlega himinlifandi.

Í vikunni sem leið fór fram á alþingi sérstök umræða um eflingu veikra byggða. Þar kom fram sú hugmynd að lækka skatta. Á landsbyggðinni það er að segja. Fríríkið Siglufjörður til dæmis, kvaðalaust en þó með öllum réttindum.

Kvikmyndagerð hefur notið ótrúlegra kjara hér á landi. Íslenskir skattgreiðendur greiða kvikmyndaframleiðendum, íslenskum sem erlendum, 20% af öllum kostnaði sem til fellur hér á landi. Þessi gjörningur átti að vera tímabundin liðlegheit til að hvetja kvikmyndagerð hér landi en hefur nú staðið yfir í 15 ár. Nú vilja sumir tónlistarmenn einnig fá greiðslur frá skattgreiðendum og allt stefnir í að svo verði ef marka má tækifærisræður stjórnmálamanna.

Það er ekki einleikið hvað sumir sækja sértækar aðgerðir stíft. Ég gæti best trúað því að stjórnmálamenn, margir hverjir, telji það sitt hlutverk að sníða einhvers konar sérreglur um hvaðeina. Öðruvísi geri þeir sig ekki gildandi. Þeir eru nánast friðlausir ef ekki er umræða um einhvers konar undanþágur frá lögum og reglum, í nafni réttlætisins auðvitað, illrar nauðsynjar eða bara með vísan til æskilegrar þróunar að mati einhvers.

Í atvinnulífinu sjá menn stundum ekki skóginn fyrir trjánum og eru oft engu betri en stjórnmálamennirnir. Auðvitað eru menn þar uppteknir af eigin rekstri, og eiga að vera það. Menn skyldu þó hafa í huga að sértækar aðgerðir, undanþágur og ívilnanir kosta pening. Sá peningur verður sóttur, þótt síðar verði. Með vöxtum og vaxtavöxtum.

>>Menn lenda fljótt í ógöngum þegar þeir byrja að hygla einum á kostnað annarra.<<

Grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. mars 2015.