Menu

Eitt atriði við skipun dómara

27/12/2019 - Fréttir
Eitt atriði við skipun dómara

Í Morgunblaðiðnu 16. desember 2019 birtist grein eftir mig um nýútgefið álit nefndar um hæfi umsækjenda um embætti dómara við Hæstarétt. Greinina má finna hér á síðu minni.

Í kjölfarið fjallaði Morgunblaðið nokkuð um störf þessara dómnefndar og þá aðferðarfræði sem hún hefur viðhaft en hefur verið umdeild og jafnvel gagnrýnd af Umboðsmanni Alþingis. Umfjöllun Morgunblaðsins má finna hér (17. desember 2019), hér (18. desember 2019), r (19. desember 2019) og r (20. desember 2019).

Viðskiptablaðið fjallaði líka um hið nýja dómnefndarálit hér. Ríkisútvarpið hefur ekki enn fjallað um nýju vinnubrögð hæfnisnefndarinnar.

Umfjöllunin varpar ágætu ljósi á þá staðreynd að hinn meinti munur sem einhverjir kaffihúsaspekingar töldu vera á hæfi þeirra annars vegar fjögurra umsækjenda sem ég gerði tillögu um við Alþingi við skipun í Landsrétt og hins vegar hinna fjögurra sem ég gerði ekki tillögu um en dómnefndin hafði metið meðal svokölluðu hæfustu, er ekki til staðar. Umsækjendur um stöðu Hæstaréttar nú í desember höfðu áður verið metnir í tengslum við umsóknir um stöðu við Landsrétt. Sá munur sem var á einkunnum þeirra við Landsréttarumsóknina er nú horfinn og þau öll metin hæf til að gegna auglýstri stöðu dómara. Það var nú einmitt ekki annað sem ég hafði um málið að segja á sínum tíma.

Og nú hefur dómsmálaráðherra skipað þann umsækjandann dómara við Hæstarétt sem hlaut í Landsréttarmálinu 1,05 lægri einkunn en einn umsækjandinn þá og nú. Munur á einkunn hins nýskipaða Hæstaréttardómara og eins þeirra fjögurra sem ég gerði tillögu um við Alþingi var minni.

Uppfært 28. desember 2019 – Umfjöllun Morgunblaðsins er greinilega ekki lokið. Ný umfjöllun var í blaðinu í dag og má nálgast hér. Það sem þar kemur fram styður enn frekar það sem ég hef sagt um þessi mál. Morgunblaðið gerir tilraun til þess að ræða við Gunnlaug Claessen sem veitti hæfnisnefndinni forystu í Landsréttarmálinu. Hann neitar að tjá sig frekar um málið.