Evrópumótið í innleiðingu

Ætli einhver hér á landi sé mjög áfram um að sett verði lög um heiti textíltrefja og viðkomandi merkimiða og merkingar varðandi trefjasamsetningu textílvara? Nei. Ætli slík lög séu nauðsynleg til varnar almannaheill? Nei. Ætli einhver á Ítalíu, Írlandi eða í öðru Evrópulandi hafi misst svefn yfir því að hér á landi séu ekki í gildi lög um þetta? Nei. Samt var íslenska ríkinu stefnt fyrir EFTA-dómstólnum um daginn vegna þessa, og situr uppi með málskostnaðarreikning vegna dómsmálsins sem í raun var tilefnislaus þar sem Ísland viðurkenndi strax sök.Talningarmenn í Brussel hafa miklar áhyggjur af því að Ísland innleiði ekki nógu hratt regluverk ESB. Við verðum bara að standa okkur betur, segja embættismennirnir hvetjandi rétt eins og um sé að ræða Evrópumeistaramót í innleiðingu. Það gleymist hins vegar að nefna að oft er málefnaleg skýring á töfinni. Það kann að koma í ljós, löngu eftir að ESB regla er afgreidd af embættismönnum í Sameiginlegu EES nefndinni (sem er nokkurs konar anddyri sem allar ESB reglur þurfa að fara í gegnum áður en þær verða lögfestar hér á landi) að reglan kallar á umtalsverðar breytingar á íslenskum lögum og þeir sem reglan varðar þurfa lengri tíma til aðlögunar. Þá kunna sumar ESB-gerðir að vera svo ómerkilegar að eðlilegt er vinna við innleiðingu þerra tefji ekki mikilvægari vinnu hér á landi. Svo eru til gerðir sem embættismenn Íslands hefðu átt að koma í veg fyrir að þyrfti yfirleitt að innleiða hér á landi. Fullt af gerðum ESB er þess eðlis að þær eiga ekki nokkurt erindi við íslenskan veruleika. Innleiðing þeirra hér á landi væri eintóm sýndarmennska. Sem dæmi má nefna nýja tilskipun ESB sem hækkar viðmiðunarfjárhæð tryggingarverndar bankainnistæðna. Ísland, sem gat ekki í bankahruninu uppfyllt skyldu um að tryggja innistæður að lágmarki 20 þúsund evrur mun innan skamms innleiða hina nýju tilskipun sem kveður á um 100 þúsund evra lágmarkstryggingarvernd!Innleiðingarhalli er ekki áhyggjuefni heldur miklu frekar hin stjórnlausa innleiðing. Réttilega hefur verið bent á að Ísland hefur á að skipa færri embættismönnum í Brussel og í ráðuneytum heldur en til dæmis Noregur. Er sanngjarnt að búast við öðru? Ísland gæti seint staðið jafnfætis Noregi hvað umfang stjórnsýslu varðar, sem betur fer. Hins vegar er fyrir löngu ljóst að áherslur íslenskra embættismanna í EES samstarfinu þurfa að breytast. Ísland fullgilti EES-samninginn ekki vegna samstarfsins sem slíks heldur vegna hagsmuna þjóðarinnar. Fyrst og fremst þarf að gæta að þeim hagsmunum. Keppnisskapið í samstarfinu má ekki draga úr því hlutverki embættismannanna.

>>Látum kappið ekki bera fegurðina ofurliði. Einkunnarorð Valsmanna eiga vel við í EES-samstarfinu.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2015.

Previous
Previous

Um stellingar manna í símtölum

Next
Next

Ég um mig