Menu

Flóttinn mikli af þingi

13/08/2016 - Fréttir
Flóttinn mikli af þingi

Það er umhugsunarefni hve margir reyndir þingmenn ætla að hætta á þingi við næstu kosningar. Alls hafa 16 þingmenn lýst því yfir að þeir sækist ekki eftir endurkjöri, skv. fréttum RÚV. Þetta bætist við mikla endurnýjun í undanförnum kosningum. Í kosningum 2007 tóku 24 nýir þingmenn sæti, 27 árið 2009 og 28 eftir kosningarnar 2013, auk þess sem þrír nýir til viðbótar hafa tekið sæti á kjörtímabilinu.

Eftir næstu kosningar verða að mér sýnist aðeins 13 þingmenn eftir af þeim sem náðu kjöri árið 2007. Og óvíst er að þeir nái allir kjöri eins og gengur.

Nú er auðvitað ekki til ákveðin tala fyrir hæfilega endurnýjun en menn hljóta að velta því fyrir sér hvort hin öra endurnýjun undanfarin tvö kjörtímabil hafi verið til bóta. Ef marka má umræðuna og mælingar á trausti til þingsins er það ekki niðurstaðan.

Einn af þeim sem ætlar ekki að gefa kost á sér við næstu kosningar er sessunautur minn í þingsalnum Ögmundur Jónasson sem hefur setið á þingi síðan 1995. Hinum megin við mig hefur lengst af síðasta þingvetri verið sæti forseta alþingis, Einars K. Guðfinnssonar sem fyrst tók sæti á þingi árið 1980 (sem varaþingmaður) en ætlar að hætta á þingi í vetur. Það hafa verið forréttindi að hafa sem sessunauta þessa reyndu karla, enda báðir þægilegir, ljúfir og kátir. Við Ögmundur ráðum stundum ráðum okkar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og verðum yfirleitt sammála um að vera ósammála.