Menu

Fóðra valdið

23/09/2019 - Fréttir
Fóðra valdið

Árið 2006 rættist loks sá draumur Egils Skalla-Grímssonar að silfri yrði sáldrað yfir þingheim til að valda uppnámi og áflogum. Þá voru samþykkt lög sem gerðu stjórnmálaflokkana nær algerlega háða reiptogi um það skotsilfur skattgreiðenda sem er til skiptanna á Alþingi. Nokkru síðar tók við áður óþekkt langvarandi upplausn í íslenskum stjórnmálum og stefnir nú hraðbyri í að hver maður verði með sinn flokk því þannig hámarka menn sinn hlut í silfrinu. Jafnvel flokkar sem ná ekki kjöri eiga von um hlut að uppfylltum vægum skilyrðum.

Nú eru uppi hugmyndir um að íslenskir fjölmiðlar fari sömu leið og flokkarnir og verði upp á framlög úr ríkissjóði komnir. Hugmyndin kemur svo sem ekki upp úr þurru. Frjálsu fjölmiðlarnir eiga við ofurefli að etja gagnvart Ríkisútvarpinu. RÚV fær nokkur þúsund milljónir á ári frá almenningi óháð því hvort menn nýta sér þjónustu þess. Ríkisfyrirtækið nýtir þessa forgjöf einnig til að draga til sín auglýsingatekjur. Í stað þess að laga þetta óréttlæti gagnvart almenningi og einkareknu miðlunum með því að draga úr þvinguðum framlögum almennings til Ríkisútvarpsins vilja sumir stjórnmálamenn nú bæta í óréttlætið gagnvart skattgreiðendum. Það á að gera með því að skattgreiðendur verði einnig þvingaðir til að gerast styrktarmenn hjá alls kyns einkareknum miðlum, dagblöðum, útvarpsstöðvum og bloggsíðum.

Því fylgja sérstök ónot að hið svokallaða fjórða vald verði háð ríkinu á þennan hátt. Fjölmiðlar munu árlega þurfa að blanda sér í baráttuna um úthlutunarreglurnar og sækja að því búnu sameiginlega að fjárveitingavaldinu um að auka framlögin frá skattgreiðendum. Eru fjölmiðlar líklegir til að veita stjórnvöldum aðhald á sama tíma og þeir eru á slíkum fóðrum?