Menu

Frelsi fasteignaeigandans

08/02/2015 - Fréttir, Greinasafn

Á skemmtilegri ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafninu þessa dagana má sjá myndir Kristins Guðmundssonar sem hann tók í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1975-1985. Flest húsanna þekkja Reykvíkingar á mínum aldri og eldri af eigin raun þar sem þau hýstu verslanir eða þjónustu en sum eru af íbúðarhúsum. Myndefnið er skemmtilega afmarkað við einstök hús, ekki fólk, bíla eða umhverfið í kring. Myndir frá gamalli tíð vekja gjarnan góðar minningar. Mér þætti hins vegar með ólíkindum ef þessar myndir vektu söknuð eða eftirsjá einhverra eftir gamla tímanum. Nánast öll verslunarhúsin eiga það sammerkt að hafa verið byggð af litlum efnum, ljót og þess utan í algerri niðurníðslu. Þau fáu reisulegu íbúðarhús sem myndirnar sýna voru klædd bárujárni sem hékk saman af gömlum vana. Ég man vel hversu ömurlegt var að ganga í gegnum ryðmengað Grótaþorpið á 8. og 9. áratugnum. Mér þykir með ólíkindum hversu lengi hið niðurnídda ástand „var látið viðgangast“. Bæði borgaryfirvöld og eigendur hinna niðurníddu húsa sýndu ótrúlegt langlundargeð í garð ömurleikans.

Er frjálshyggjumönnum eins og mér vandi á höndum þegar kemur að skipulagsmálum í íbúðabyggð? Getum við fett fingur út í það hvernig einstakir fasteignaeigendur ráðstafa fasteignum sínum, hvernig þeir hagnýta eignir sínar eða hvernig þeir kjósa að láta húsin sín líta út? Löggjöf heimilar vissulega afskipti stjórnvalda af eignarrétti fasteignaeigenda í tilteknum tilvikum en er rétt að játa stjórnvöldum slíkan rétt? Mér finnst blasa við að svara þessu játandi þegar um er að ræða hagnýtingu eignar sem snertir með beinum hætti rétt annarra, til dæmis nágranna. Þannig tel ég fráleita þá þróun sem orðið hefur í vesturborginni með því að gömlum íbúðarhúsum í gróinni íbúðabyggð er breytt í gisitiheimili með sérlegu samþykki borgaryfirvalda og þrátt fyrir málefnaleg og rökstudd mótmæli nágranna. Ég tel líka þá skyldu fylgja eignarrétti að fasteign að eigninni sé haldið þannig til haga að aðrir hafi ekki ama af. Hús í niðurníðslu hefur ótvírætt áhrif á verðmæti aðliggjandi eigna, ef ekki beint fjárhagstjón þá hefur það í öllu falli í för með sér miska. Eignarrétturinn friðhelgi kemur ekki í veg fyrir afskipti annarra í þessum tilvikum.

En svo er það ósmekklega fólkið. Er með einhverjum hætti hægt að koma böndum yfir það og stöðva fráleitar útlitsbreytingar á húsum? Vernd og friðun húsa verðskuldar sérstaka umfjöllun af hálfu frjálshyggjumannsins, í næsta pistli.

>>Umburðarlyndi í garð niðurníðslu og ljótleika er oft meira en ég tel eðlilegt. Þar er ekki bara við skipulagsyfirvöld að sakast.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. febrúar 2015.