Sigríður Á. Andersen

View Original

Því þéna karlmenn meira?

BókardómurWarren Farrell: Why Men Earn More, Amacom 2005, 270 bls.„Mestu máli skiptir er að hafa gaman af því sem maður vinnur við", - er viðkvæðið hjá sumum. „Bara að láta drauma sína rætast, fylgja eðlishvötinni og gera það sem maður gerir best og þá vegnar manni vel. Peningarnir fylgja þá bara áreynslulítið í kjölfarið." eru gjarnan skilaboð sérfræðinga á sviði sjálfshjálpar. Dr. Warren Farrell, höfundur bókarinnar Why Men Earn More, tekur undir þetta útbreidda viðhorf til starfsánægju. Upp að vissu marki.  Í bók sinni, sem ber undirtitilinn The Startling Truth Behind the Pay Gap - and What Women Can Do About It, færir höfundur rök fyrir því að standi áhugi manna helst til þess að sjá sér og sínum farborða sé ekki endilega víst að það sem mestu máli skipti sé velja sér starf sem uppfylli aðra drauma manns. Það getur vissulega verið hollt, andlega og líkamlega, að láta sér líða vel í vinnunni, en það er ekki endilega jafn gott fjárhagslega. Bókin Why Men Earn More er sjálfshjálparbók. Bókarkápan ber þess skýr merki og skartar skærgulri stjörnu sem rammar inn loforð um 25 leiðir til þess að hækka laun lesandans. Titill bókarinnar höfðar vissulega einkum til kvenna en taka má undir með höfundi að karlmenn ættu ekki síður að geta nýtt sér þær hugleiðingar sem settar eru fram í bókinni. Það er reyndar eitt meginstefið í bókinni að allar aðgerðir fyrirtækja (og ríkisins) sem miða að því að auka og bæta hlut kvenna, til dæmis varðandi laun og mannaráðningar, eigi að vera þess eðlis að karlmenn geti líka nýtt sér þær. Að mati höfundar hafa hugtökin ánægja (e. fulfillment) og starfsframi (e. career) verið spyrt saman með óheppilegum hætti undanfarna áratugi. Þannig hafi upp úr miðri síðustu öld verið gengið út frá því að velgengni karlmanns á vinnumarkaði veitti þeim sjálfkrafa starfsánægju. Á þeim tíma vakti enginn athygli á þeim fórnum sem karlmenn höfðu fært til þess að öðlast starfsframa. Með þessar hugmyndir í farteskinu flykktust konur svo á vinnumarkaðinn og margar með það að markmiði að öðlast starfsframa, og þá væntanlega hina meintu ánægju sem framanum fylgir. Öll þekkjum við svo umræðuna sem fylgdi í kjölfarið, og fer enn fram, um þær aðstæður þegar konur standa frammi fyrir því að fórna starfsframanum fyrir til dæmis barnauppeldi. Það varð hins vegar aldrei nein umræða um þær fórnir sem karlmenn þurftu að færa til þess að öðlast starfsframa einfaldlega vegna þess að menn áttuðu sig ekki á því á þeim tíma að slíkar fórnir voru vissulega færðar, segir Dr. Warren Farrell í bók sinni. Þær fórnir eru reyndar enn færðar að hans mati en hann vonar að bók sín varpi nýju ljósi á stöðu karlmannsins í því ævaforna hlutverki að framfleyta sér og sínum nánustu. Um leið hafa karlmenn haft skyldum að gegna gagnvart vinum og vinnufélögum. Höfundur færir fyrir því rök að starfsframi karlmanna hafi verið á kostnað heilsueflingar og samverustunda með fjölskyldu og vinum. Hann bendir á að margir af þeim sem í dag eru taldir leiðtogar á sínu sviði eigi það sammerkt að hundsa heilsu sína þar til nánast í óefni er komið. Nefnir hann máli sínu til stuðnings stjórnmálamenn eins og Bill Clinton og Dick Cheney. Þá nefnir hann eilífan meting bandarískra stjórnmálamanna, um hver hafi hætt lífi sínu í stríðinu í Víetnam, sem dæmi um þá kröfu sem gerð er til þeirra sem falast eftir starfsframa að þeir hafi hag sinn, jafnvel líf sitt og limi, ekki í fyrirrúmi. Bókin er lipurlega skrifuð eins og bandarískar bækur af þessum toga eru gjarnan og efni hennar er vel fram sett. Hún er tvískipt. Í fyrri hlutanum rennir lesandinn greiðlega í gegnum þær 25 athugasemdir sem höfundur telur að þeir sem sækjast eftir hærri launum ættu að hafa í huga. Einhverjar þessara athugasemda eru trúlega meðal þeirra breyta sem Dr. Helgi Tómasson dósent við Háskóla Íslands telur menn líta fram hjá þegar þeir fullyrða um laun kynjanna í hinni svokölluðu jafnréttisumræðu. Helgi fjallaði einmitt um gildrur tölfræðinnar í þeirri umræðu í 2. hefti Þjóðmála, á síðasta ári. Í grein sinni lagði Helgi áherslu á að við samanburð á tveimur stærðum, launum tveggja einstaklinga, sé tekið tillit til allra, ekki bara einstakra, skýristærða samtímis. Þannig þurfi alltaf að hafa í huga störf einstaklinganna og aldur þeirra og starfsaldur, órofinn og rofinn og menntun og vinnuframlag í klukkustundum og vinnuframlag í afköstum og hreinlega hvað eina annað sem gerir það að verkum að tveir einstaklingar eru ekki eins. Helgi svaraði því ekki hverjar þessar breytur eru en benti á að tölfræðilíkan sem ætti að taka þær allar með í reikninginn fyrir allar núlifandi kynslóðir á vinnumarkaði yrði eðli máls gríðarlega flókið. Dr. Warren Farrell gerir hins vegar tilraun til þess í bókinni sem hér er til umfjöllunar að kynna þau sjónarmið sem að baki launamun liggja. Í fyrsta lagi ættu menn að vanda vel valið á starfsvettvangi. Höfundurinn virðist hafa lagt töluverða vinnu í gerð lista yfir hálauna- og láglaunastörf og setur jafnframt fram lista nákvæmari lista yfir laun karla og kvenna í viðkomandi störfum. Allar launatölur sem settar eru fram styðjast við opinberar hagtölur. Lestur slíkra talna hefur auðvitað takmarkað gildi fyrir Íslendinga en höfundur kemur kannski til móts við alþjóðlegan lesendahóp að einhverju leyti með því að setja einnig fram með skilmerkilegum hætti lista sem sýnir hlutfall tekna kvenna af tekjum karla í tilteknum atvinnugreinum. Það er svo alltaf jafn athyglisvert, og hollt fyrir íslenska lesendur, að sjá svart á hvítu hversu fjölbreytt atvinnulífið er í raun, hversu mörg tækifærin má finna. Hér á landi er hætt við að menn sjái ekki tækifærin sem felast í því að brjóta upp hefðbundna atvinnuvegaflokkun. Hjúkrunarfræðingar starfa hér nánast allir sem einn hjá sama vinnuveitanda. Kennarar einnig. Í bókinni er hins vegar bent á margvísleg tækifæri til hálaunastarfa fyrir hjúkrunarfræðinga. Til dæmis með því að anna gríðarlegri eftirspurn eftir farandhjúkrunarfræðingum, nokkuð sem ekki þekkist hér á landi í þeim mæli sem um ræðir í Bandaríkjunum. Íslenskum lesendum gæti einnig þótt einkennilegt að staðfæra umfjöllun um tækifæri kvenna innan hersins. Þegar betur er að gáð er þó í henni margt sem hægt er að nýta sér í íslensku atvinnulífi. Svo sem eins og ábendingar til kvenna um að komast í hættustarf án þess að leggja sig í hættu við starfið. Hermennska er dæmi um hættustarf sem konur geta gengið í og þegið nákvæmlega sömu laun og karlar, án þess þó að taka á sig sömu áhættu þeir. Höfundur fullyrðir, með vísan til tölfræði yfir kynjaskiptingu fallinna hermanna í Írak, að karlmenn séu í fjórfalt meiri hættu en konur.Þegar menn hafa komið sér niður á starfsvettvang leggur höfundur til að menn taki tillit til þeirra staðreynda sem hann segir að blasi við; hálaunafólk skili fleiri vinnustundum, eigi lengri órofinn starfsferil að baki, sé sjaldnar en aðrir frá vinnu og sætti sig við minna starfsöryggi en aðrir. Seinni hlutinn er helgaður umfjöllun um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þar er meðal annars fjallað um ástæður þess að laun eiga það til að lækka þegar konur flykkjast í hefðbundna karlastétt. Höfundur bendir á að tækninýjungar séu gjarnan ástæða þess að konur hasla sér völl í karlagreinum. Þannig megi í raun rekja launalækkun í faginu til tækniframfara. Einnig bendir hann á að um leið og konur sækja í miklum mæli inn í hefðbundnar karlagreinar þá gerist það stundum að gerðar séu minni kröfur til starfans. Þannig tekur hann dæmi af stétt sálfræðinga. Allt fram á 7. áratuginn hafi karlar verið í miklum meirihluta í faginu og reyndar hafi verið erfitt að komast inn í stéttina, jafnt fyrir karla sem konur. Æðri prófgráða eins og meistarapróf í klínískum fræðum (e. MD), eða doktorspróf, hafi þurft til þess að stunda rekstur á þessu sviði. Þegar konur fóru hins vegar að sækja stíft í greinina beittu löggjafinn og tryggingarfélög sér fyrir því að lækka kröfurnar sem settar voru fyrir tryggingum sálfræðinga. Þannig var konum, og körlum, með minna metið meistarapróf (e. MA) gert kleyft að veita sálfræðiþjónustu. Þannig var það kerfisbreyting sem olli tekjulækkuninni en ekki hin eiginlega innkoma kvenna í stéttina. Mörg raunveruleg dæmi af þessu tagi eru í bókinni og gera hana líflega. Einnig eru reynslusögur einstaklinga áhugaverðar þótt vissulega lýsi þær stundum bandarískum veruleika sem erfitt er að heimfæra á íslenskan vinnumarkað. Why Men Earn More er í heild skemmtileg og ætti að höfða til allra þeirra sem hafa áhuga á launamun kynjanna. Það er að segja ef þeir hafa raunverulegan áhuga á að horfast í augu við ástæðurnar sem að baki liggja.

Greinin birtist í hausthefti tímaritisins Þjóðmála, 3.tbl. 2006.