Sigríður Á. Andersen

View Original

Ferðafrelsi og bólusetningar

Ég fagna ákvörðun dómsmálaráðherra um að afnema ákvæði í reglugerð sem takmarkar ferðir fólks utan Schengen svæðisins hingað til lands við „nauðsynlegar“ ferðir.

Í reglugerð heilbrigðisráðherra sem hefur verið í gildi um nokkurt skeið eru þeir sem eru með bólusetningarvottorð frá EES ríkjum undanþegnir skimunum og sóttkví við komuna til landsins. Samkvæmt reglugerðinni hafa þeir líka verið undanþegnir skimunum og sóttkví sem hafa verið bólusettir utan EES með bóluefni sem WHO ,,hefur sérstaklega fjallað um“ og fást þannig færð inn í gulu bólusetningarvottorðin sem margir kannast við. Í dag eru það bóluefni frá Astra Zeneca, Pfizer, Jansen og Serum sem uppfylla þessar kröfur WHO.

Það hefur hins vegar verið reglugerð dómsmálaráðherra sem hefur hindrað komu þessa fólks utan EES ef það hefur ekki getað sýnt fram á að vera í ,,nauðsynlegri“ ferð hingað. Þessi hindrun á rætur að rekja til Schengen samstarfsins. Nú hafa íslensk stjórnvöld tekið ákvörðun um að afnema þessa hindrun og gera gott betur, að breyta einnig reglugerð heilbrigðisráðherra og miða ekki bara við þau bóluefni sem WHO hefur fjallað um heldur verður tekin gild bólusetning ef um er að ræða bóluefni frá þeim framleiðendum sem evrópska lyfjastofnunin hefur samþykkt. Bætist þá við listann frá WHO bóluefni frá Moderna.

Þessi skref í átt að opnun landsins eru mikilvæg og fagnaðarefni. Þau munu mögulega kalla fram umræðu á vettvangi Schengen og vonandi vera öðrum ríkjum hvatning til þess að einbeita sér að bólusetningum og sóttvarnaaðgerðum innanlands en ekki á landamærum.

Ég geld þó varhug við því að búið verði til kerfi um bólusetningarvegabréf. Það má ekki gerast að bólusetning, og enn eitt ,,kerfið“, verði gert að skilyrði fyrir ,,tilefnislausum“ eða „ónauðsynlegum“ ferðum fólks á milli landa.