Sigríður Á. Andersen

View Original

Auglýsingabann í prófkjörum

Hverjir skyldu hafa mesta hagsmuni af því að settar séu strangar reglur um auglýsingar og kynningar á frambjóðendum í prófkjöri og auglýsingar jafnvel bannaðar? Augljóslega þeir prófkjörsþátttakendur sem þegar eru þekktir, annað hvort af verkum sínum sem sitjandi stjórnmálamenn eða vegna áberandi starfa sinna á öðrum vettvangi. Aðrir þátttakendur eiga allt undir því að koma sér á framfæri við kjósendur. Í þeim efnum dugar engin ein aðferð. Úgáfa bæklings er oft nauðsynleg en sjaldan nægileg ein og sér til þess að ná athygli þeirra sem ekkert þekkja til frambjóðandans. Símhringingar í kjósendur geta verið áhrifaríkar ef rétt er að þeim staðið. Ólíklegt er þó að þær væru látnar duga til þess að kynna nýjan frambjóðenda, einkum með hliðsjón af umfangi þeirra í stórum prófkjörum eins og á höfuðborgarsvæðinu. Auglýsingar, í prentmiðlum eða ljósvakamiðlum, eru eðli máls aldrei öðru vísi en stuttar og hintmiðaðar, en er afar áhrifamikil leið til þess að koma nýjum frambjóðanda á framfæri. Óþekktir nýliðar sem vilja eygja einhverja von um árangur í prófkjöri geta þó tæplega reitt sig einungis á auglýsingar. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga við hverja att er kappi. Þeir nýliðar sem hafa t.d. verið daglegir gestir landsmanna á sjónvarpsskjánum, í fréttum, vegna þáttagerðar eða sem reglulegir gestir spjallþáttanna, hafa gríðarlegt forskot í  prófkjörum. Auglýsingar eru þá tvímælalaust besta leiðin sem óþekktur frambjóðandi hefur til þess að koma nafni sínu, andliti og málefnum á framfæri. Reyndar er það nú líka svo að a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu eru auglýsingar líka ódýrasta leiðin til þess arna. Þess vegna skýtur það skökku við að Samfylkingin bannaði frambjóðendum í prófkjöri sínu í Suðvesturkjördæmi að auglýsa. Þeir máttu hins vegar gefa út bækling og dreifa í kjördæminu. Þá máttu þeir kosta eins miklu til og þeir vildu í úthringingar, heimasíðugerð og heimsóknir til kjósenda. Þetta fyrirkomulag getur auðvitað verið heppilegt fyrir þá frambjóðendur sem eiga vini meðal grafískra hönnuða, tölvusnillinga og viljugra sjálfboðaliða. Aðrir frambjóðendur vita hins vegar að gerð og dreifing bæklings í öll hús kjördæmisins er ekki kostnaðarlítil kosningabarátta. Það má kaupa nokkrar heilsíðuauglýsingar í dagblöðunum fyrir þann pening sem bara dreifingin kostar.Málflutningur samfylkingarmanna, og annarra sem kalla eftir málfrelsisskerðingu prófkjörsframbjóðenda, er til þess fallinn að slá ryki í augu kjósenda og segir ekkert til um vilja manna til þess að halda kostnaði í lágmarki.

Greinin birtist í Umræðunni í Fréttablaðinu 13. nóvember 2006.