Á réttri leið
Peningastefnunefnd Seðlabankans kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd alþingis fyrr í haust og lýsti þar stöðu efnahagsmála sem nefndin taldi til fyrirmyndar. Það var nefnt að mjög sjaldgæft væri að sjá svo jákvæð teikn á lofti í efnahagslífinu. Fulltrúar peningastefnunefndar sögðu það, ekki ég. Þessi jákvæðni var endurtekin í vikunni í yfirlýsingu nefndarinnar. Skilyrði til afnáms fjármagnshaftanna hafa aldrei verið betri. Það er enda verið að stíga mikilvæg skerf í þeim efnum nú á lokadögum þingsins og áform eru um að ganga lengra á fyrri hluta næsta árs.Það er auðvitað ekki gaman fyrir stjórnarandstöðu eða nýja flokka að heyja kosningabaráttu í þessu andrúmslofti. Ekki er hægt að saka ríkisstjórnina um að skila af sér vondu búi eða að hafa ekki staðið við helstu loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar. Samkomulag hefur blessunarlega verið gert við erlenda kröfuhafa sem afsöluðu sér verulegri fjárhæð til ríkissjóðs. Samhliða var girt fyrir það að aflandskrónur myndu streyma úr landi á þann hátt að ógnaði hér fjármálastöðugleika. Grundvallarbreyting í þágu réttaröryggis hefur verið gerð með lögum sem tryggja sönnunarfærslu á tveimur dómstigum. Nám til stúdentsprófs hefur verið stytt um eitt ár. Skattar hafa sumir verið afnumdir. Framlög til heilbrigðismála hafa verið aukin á kjörtímabilinu eftir stöðnun áranna eftir hrun. Þá var strax í upphafi kjörtímabilsins afnumin ósanngjörn skerðing grunnlífeyris elli- og örorkulífeyris sem síðasta ríkisstjórn greip til.Okkur hefur lagst ýmislegt til á undanförnum árum sem hefur gert allt þetta og meira kleift. Það þrætir enginn fyrir það að utanaðkomandi aðstæður hafa verið okkur hagstæðar, t.d. stórauknar gjaldeyristekjur af ferðamönnum sem aftur má skýra með mörgum öðrum utanaðkomandi þáttum. Þessi góðu mál hefðu hins vegar ekki náð fram að ganga nema af því að ríkisstjórnarflokkarnir sammæltust um það að byggja upp aftur efnahagslífið með stöðugleika til langs tíma að markmiði, en ekki skammtíma vinsældir.Nú bjóða fram flokkar sem hafa haft það sem sitt helsta baráttumál undanfarin misseri að særa fram nákvæma dagsetningu á kjördegi. Þegar hún svo lá fyrir er því fundið allt til foráttu að alþingi skuli enn vera að störfum, lýðræðislega kjörið þingið. Þessir flokkar óttast það mest að ríkisstjórnin nái að ljúka t.d. gagngerum og nauðsynlegum breytingum á almannatryggingakerfinu, námslánakerfinu og samgönguáætlun. Þessir flokkar vilja ekki missa af tækifærinu til þess að bjóða allt fyrir alla í þessum efnum, já og auðvitað með því að skattleggja mjög fáa.
Margt bendir til að við getum á næstu árum haldið áfram að bæta hag allra landsmanna.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. október 2016. -saa@althingi.is