Sigríður Á. Andersen

View Original

Ánægðustu viðskiptavinirnir

Það orkar margt tvímælis sem gert hefur verið eftir bankahrunið árið 2008. Í viðleitni sinni til að afneita þeirri staðreynd að fjármálafyrirtæki, alveg eins og önnur fyrirtæki, geta orðið, og urðu, gjaldþrota hafa stjórnvöld ítrekað teflt fram áætlunum sem miða að því að gera tiltekna hópa í þjóðfélaginu skaðlausa vegna hrunsins. Stjórnvöld hafa þannig látið undan kröfum skuldara um sérstakar aðgerðir um niðurfellingu skulda. Þá hafa stjórnvöld með lagasetningu og ákvörðun FME stofnað ný fjármálafyrirtæki á grunni þeirra sem í raun urðu gjaldþrota. Skuldir og eignir viðskiptavina hinna gjaldþrota fjármálafyrirtækja voru með einni ákvörðun flutt yfir í ný fjármálafyrirtæki. Allt hefur þetta litið út fyrir að ganga snurðulaust fyrir sig og hefur líklega gert það að mörgu leyti. Skuldarar af ýmsum toga hafa fengið niðurfelldar skuldir, stórar og smáar, og hinn hefðbundni viðskiptavinur bankanna hefur ekki átt í vandræðum sem nokkru nemur í daglegum bankaviðskiptum.Það vill hins vegar gjarnan gleymast að með aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum hefur mörgum grundvallarreglum t.d. kröfuréttar verið vikið til hliðar og nokkurt ójafnræði verið skapað meðal þegna þessa lands. Eitt dæmi skal nú rakið hér og varðar umbjóðanda minn sem var meðal viðskiptavina Spron. Viðskiptavinir Srpon voru löngum taldir meðal ánægðustu viðskiptavina fjármálafyrirtækja, ef marka má auglýsingar sparisjóðanna. Gengistryggt lán greitt uppViðskiptavinur Spron til margra ára tók hjá sjóðnum gengistryggt lán til íbúðakaupa. Hann ákvað að greiða lánið upp í nóvember 2008 eftir verulega hækkun höfuðstóls. Á þeim tíma starfaði Spron með sérstakri undanþágu FME frá starfsleyfisskilyrðum laga um fjármálafyrirtæki en það var ekki opinbert á þessum tíma. Spron var skipuð skilanefnd í mars 2009 og tekið til slitameðferðar í júní sama ár.Í dag eru maðurinn og slitastjórn Spron sammála um að lán þetta hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Eins og aðrir í þessu landi fékk maðurinn þó ekki vitneskju um það fyrr en 16. júní 2010 þegar dómar Hæstaréttar féllu um bílalánin svokölluðu sem síðar var staðfest að ættu líka við um fasteignalán. Það liggur því fyrir að maðurinn hefur ofgreitt Spron nokkrar milljónir miðað við endurútreikning sem gerður er á grundvelli breytinga á vaxtalögum sem alþingi samþykkti í desember 2010.ÓjafnræðiHefði maðurinn tekið þetta ólögmæta lán hjá einhverjum hinna föllnu banka og greitt það upp í nóvember 2008 væri hann nú í dag búinn að fá ofgreiðsluna endurgreidda. Viðskiptavinur Spron þarf hins vegar að lýsa kröfu gagnvart slitastjórn Spron til þess fá þessa endurgreiðslu. Frestur til að lýsa kröfum rann hins vegar út 22. janúar 2010, löngu áður en Hæstiréttur kvað upp úr um ólögmæti gengislánanna. Maður þessi lét á það reyna á síðasta ári að koma kröfunni að þrátt fyrir þetta með vísan til m.a. fordómalausra aðstæðna, löggjafar um endurútreikning og endurgreiðslu og jafnræðis meðal viðskiptavina fjármálastofnana. Slitastjórn hafnaði kröfunni og í þessari viku var sú ákvörðun staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.Það er umhugsunarefni fyrir löggjafann af hverju það voru einungis hagsmunir skuldara annarra fjármálafyrirtækja en Spron sem voru hafðir að leiðarljósi er vaxtalögum var breytt í desember 2010 um endurútreikning ólögmætra lána.Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2012.