Sigríður Á. Andersen

View Original

Auðstjórn almennings

Hugmyndin um þátttöku almennings í atvinnulífinu er jafn gömul manninnum. Frumstæður sjálfsþurftarbúskapur þróaðist fljótlega í viðskipti einfaldra vöruskipta sem renndi stoðum undir grundvöll hagsældar, sérhæfinguna. Frá 17. öldinni hefur hlutafélagaformið gert öllum áhugasömum kleift að snúa hjólum atvinnulífsins. Íslendingar eiga yfir 200 ára sögu í þessum efnum og alveg ágæta í mörgu tilliti. Lengst af hefur þó þátttaka almennings í hlutafélögum verið dræm. Við einkavæðingu ýmissa ríkisfyrirtækja undir lok síðustu aldar fjölgaði almennum hluthöfum verulega. Hluthöfum í Kauphöll hefur hins vegar fækkað verulega síðustu ár.

Íslandsbanki á markað

Nú stendur loksins til að færa eignarhald Íslandsbanka frá ríkinu en áform um það og ferlið voru innsigluð í löggjöf á árinu 2012. Fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir því að í þessari lotu verði um 25% hlutur í bankanum skráður á hlutabréfamarkað með tilheyrandi hlutafjárútboði. Meginmarkmiðið með sölunni er vitaskuld að minnka skuldsetningu ríkissjóðs og minnka áhættu hans af svo stórum eignarhlut í fjármálafyrirtækjum sem Landsbankinn og Íslandsbanki eru. Önnur yfirlýst markmið eru að fjölga fjárfestingarmöguleikum fyrir einstaklinga og fagfjárfesta og stuðla að dreifðu og um leið fjölbreyttara og heilbrigðara eignarhaldi.

Ávallt er rennt blint í sjóinn hvað varðar viðtökur í útboði. Markaðir hafa hins vegar tekið vel í ný útboð á hlutabréfum hérlendis á síðasta ári. Nýafstaðið hlutafjárútboð Icelandair sýndi til að mynda að auk fagfjárfesta hefur almenningur áhuga á að taka þátt í fyrirtækjarekstri með þeirri takmörkuðu ábyrgð sem hlutafélagaformið býður upp á. Þrátt fyrir þær fordæmalausu aðstæður sem það fyrirtæki var í vegna hruns í ferðaþjónustu fór eftirspurn eftir hlutum í því langt fram úr framboði. En mögulega var það kannski einmitt vegna þeirrar erfiðu stöðu, en ekki þrátt fyrir, sem almenningur tók við sér. Mér finnst í öllu falli þátttaka í hlutafjárútboðum á síðasta ári sýna að almenningur í þessu landi hefur ekki látið deigan síga og ætlar sjálfur að taka þátt í endurreisa efnahaginn eftir faraldurinn. Fjöldi fólks er tilbúinn til að leggja fé sitt að veði við þá endurreisn. Það eru mikilvæg skilaboð til okkar sem störfum að stefnumótun og lagasetningu. Þökkum fyrir en þvælumst ekki fyrir þeirri endurreisn.

Hlutir afhentir almenningi

Þótt sala á 25% hlut í Íslandsbanka sé gott skref þá er ekki nógu langt gengið. Eignarhaldið allt þarf að komast frá ríkinu sem fyrst. Hlutafjárútboð er hins vegar ekki nauðsynlegt til þess arna. Nú er kominn tími til að hrinda í framkvæmd hugmynd sem fyrst var viðruð fyrir mörgum áratugum. Að ríkið afhendi landsmönnum öllum jafnan hlut í bönkunum til eignar. Ekki er til betri leið til að dreifa eignarhaldi eins og margir telja mikilvægt og enginn verður sakaður um að afhenda hlutina »útvöldum«.

Almenningshlutafélög eru mikilvæg

Eyjólfur Konráð Jónsson var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á 8. og 9. áratugnum. Hann hvatti mjög til aukinnar þátttöku almennings í atvinnulífinu í gegnum hlutafélög og var langt á undan sinni samtíð hérlendis í þeim efnum. Hann batt þá hugmynd svo ljómandi vel saman í þessum orðum sem hér eru í fyrirsögn. »Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans,« ritaði Eykon árið 1968 í bókinni Alþýða og atvinnulíf. Síðast ályktaði Sjálfstæðisflokkurinn um þetta á þessum nótum árið 2016 og formaður flokksins hefur margoft vikið að þessari hugmynd. Nú er tækifærið.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur nú til umsagnar fyrirætlan fjármálaráðherra um hlutafjárútboðið. Ég hvet nefndina til að taka af mér ómakið og leggja fram frumvarp til laga um afhendingu drjúgs hluta í Íslandsbanka til landsmanna á árinu samhliða fyrirhuguðu hlutafjárútboði.

Nú er kominn tími til að hrinda í framkvæmd þeirri hugmynd að ríkið afhendi landsmönnum öllum jafnan hlut í bönkunum til eignar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 2020.