Aukastörf embættismanna
Undanfarin misseri hafa einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök staðið í ströngu við að uppfylla á pappír reglur sem embættismenn hafa matreitt ofan í kjörna fulltrúa og sagðar eru til að gera allt líf heilbrigðara. Þannig hafa aðstandendur húsfélaga og skákklúbba eytt nokkrum mannvikum í það minnsta í leit að svari við spurningunni hver þeirra sé „raunverulegur eigandi“ þessara félaga sem þó blasir við að enginn einn „á“.
Einstaklingar og fyrirtæki þurfa reglulega að svara spurningalistum viðskiptabanka sinna um jafnvel áratuga viðskiptasamband þeirra á milli. Þá hafa innistæðueigendur í bönkum þurft að sæta því að koma að lokuðum bankareikningum sínum hafi þeir ekki sent bankanum formsins vegna eyðublöð sem engu máli skipta fyrir bankann eða heilbrigði almennings. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar, makar þeirra, aldraðir foreldrar þeirra og ómálga börn eru settir á sérstakan athugunarlista í viðskiptakerfum bankanna. Greiðslur til þessa fólks utan úr bæ sæta sérstakri skoðun og kalla stundum á formlegar útskýringar af hálfu viðtakanda.
Ofangreind skriffinnska er afurð reglna sem embættismenn hafa samið í þeim tilgangi að hafa eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Allir hljóta að sjá að hér er skotið langt yfir markið. Erfiðið er langt umfram væntan árangur.
Þessi sýndarmennska kemur upp í hugann þegar lesin er frétt af aukastörfum ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins suður í smáríkinu Óman. Segir þar að hann sitji í stjórn þjóðarsjóðs (öðru nafni ríkissjóðs) þessa erlenda ríkis, viti reyndar ekki af hverju honum var boðið stjórnarsætið en að hann telji reglur um vanhæfi ekki eiga við því leiðir ríkjanna tveggja, Ómans og Íslands, liggi aldrei saman. Þetta hafi verið borið undir alls kyns eftirlitsstofnanir hér á landi og sjálfan ráðherra sem öll lögðu blessun sína yfir landvinninga ráðuneytisstjórans í þessu einveldisríki soldánsins Haitham bin Tariq.
Vandinn við hina sívaxandi regluvæðingu stjórnsýslunnar, excel skjölin og gátlistana, er að menn stara svo fast á formið að þeir missa fullkomlega sjónar á efninu. Er eðlilegt að æðstu embættismenn íslenska ríkisins, ráðuneytisstjórar í fullu starfi, hvað þá fjármálaráðuneytis, taki að sér störf fyrir erlend ríki? Hvað nákvæmlega er fengið með því? Það kemur fram í fréttinni að ráðuneytisstjórinn þiggur 1,7 milljónir króna á ári fyrir setuna en hvað fær íslenska ríkið út úr þessu? Myndi þjóðarsjóður Íslands (væri hann til) leita til embættismanna erlendra ríkja um stjórnarsetu? Þessi sami ráðuneytisstjóri var nýlega skipaður í stjórn stærsta lífeyrissjóðs hér á landi (þótt hann sé nú ekki tilgreindur á heimasíðu sjóðsins sem slíkur). Trúlega hafa vanhæfisreglur verið mátaðar af því tilefni og stimplar fengið á þá skipun. En er hún eðlileg?
Er embætti ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins svo léttvægt að ráðrúm gefst fyrir ráðgjöf til erlendra ríkja og sjóða? Ef svo er, hvers má þá vænta af ráðherrunum sjálfum sem ekki þurfa að stimpla sig inn á skrifstofuna alla morgna? Mun fjármálaráðherra taka að sér stjórnarformennsku í Blómavali einn daginn?
Annars er skiljanlegt að ráðuneytisstjórinn vilji gera lítið úr olíuvinnslu Óman eins og fram kemur í fréttinni. Óman framleiðir þó álíka mikla olíu og Saudi Arabía miðað við höfðatölu. Vinnsla jarðefnaeldisneytis er um helmingur landsframleiðslu Ómana. Fá ríki sem gera betur í þeim efnum. Stjórnvöld hafa undanfarið talað mjög niður til jarðefneldsneytis og látið að því liggja að hætta megi vinnslu þess að ósekju fyrir íslenska hagsmuni. Það er þá kannski ágætt að íslensk stjórnvöld eigi sinn fulltrúa í olíusjóði Ómana.