Sigríður Á. Andersen

View Original

Eftirlitið staldrar við

Ljósmynd: Diane Baker.

Við höfum um árabil fylgst með stríðum straumi reglna frá Evrópusambandinu sem Íslandi er gert að innleiða með einum eða öðrum hætti vegna EES samstarfsins. Sumar reglnanna falla ágætlega að íslenskum veruleika. Aðrar síður og sumar eru beinlínis fráleitar í íslenskum aðstæðum.

Þunginn í þessu innleiðingaferli vex nú mjög ár frá ári. Fjöldi opinberra starfsmanna starfar eingöngu við undirbúning innleiðinga, við að þýða og staðfæra reglur. Margar þessara reglna leggja ekki bara miklar kvaðir á íslenskt atvinnulíf og neytendur heldur einnig mjög miklar skyldur á íslenskar eftirlitsstofnanir sem ætlað er að fylgja þessum kvöðum eftir. Óhætt er að fullyrða að í óefni sé komið á ýmsum sviðum.

Þess vegna var ánægjulegt að lesa frétt um það að nú er svo komið að jafnvel embættismönnum, sem falið er ríkt hlutverk samkvæmt mörgum innleiðingareglum, blöskrar.

Viðskiptafréttamiðillinn Innherji á Vísi sagði frá því í vikunni að seðlabankastjóri hafi í félagi við kollega sína, stjórnendur fjármálaeftirlita á Norðurlöndum, sent Evrópusambandinu bréf og biðlað til þess að einfalda hinar mörgu og flóknu reglur sem þaðan streyma og varða fjármálafyrirtæki og verðbréfamarkaði. 

Fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum eru ítrekað kaffærð með spurningalistum. Viðskiptavinunum er ekki heldur hlíft. Megnið af þess konar eftirliti er hrein sýndarmennska sem bæði hvimleitt er að þurfa að taka þátt í og kostar fyrirtæki og neytendur mikið.

Hingað til hefur ESB lagt áherslu á einsleitni reglna á svæðinu. Í bréfinu er bent á nú sé kominn tími til þess að færa fókusinn frá einsleitni og beina sjónum einnig í átt að einföldun reglna með meðalhóf að leiðarljósi. Reglur á fjármálamarkaði eigi að vera eins lítið íþyngjandi og kostur er. Þetta sé hægt að gera án þess að kasta fyrir róða markmiðinu um fjármálastöðugleika og neytendavernd. Það er mat þessara stjórnenda norrænu fjármálaeftirlitanna að einfaldari reglur styðji betur við stöðugleika og fjölbreytni á fjármálamarkaði. Þá viðurkenna þeir að ekki verði horft fram hjá væntingum bæði fyrirtækja, neytenda og lýðræðislega kjörinna fulltrúa um aðhald í ríkisrekstri og kröfu um minni byrðar atvinnulífs.

„Haka í box“ eftirlit hefur aukist. Fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum eru ítrekað kaffærð með spurningalistum. Viðskiptavinunum er ekki heldur hlíft. Megnið af þess konar eftirliti er hrein sýndarmennska sem bæði hvimleitt er að þurfa að taka þátt í og kostar fyrirtæki og neytendur mikið. Það er því ánægjulegt að lesa í bréfinu til ESB að stjórnendur fjármálaeftirlita Norðurlanda vara við þess háttar „haka í box“ eftirliti sem draga ekki raunverulega úr áhættu.

Bréf stjórnenda fjármálaeftirlits á Norðurlöndum er heilt yfir ákall um skynsemi í reglum á þessu sviði. Miðflokkurinn mun fylgja þessu máli eftir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. nóvember 2024 og síðar þann dag í umræðu Innherja á www.visir.is.