Sigríður Á. Andersen

View Original

Eldgosið tekur fram úr bílnum

Ríkið innheimtir sem kunnugt er nokkra milljarða á ári í kolefnisgjald af bíleigendum. Auk þess eru aðrir skattar eins og bifreiðagjald og vörugjald á innflutning bíla tengd kolefnislosun. Alls greiða bíleigendur um 90% af þessum losunartengdu gjöldum hér á landi þótt bílar séu aðeins með um 7% af heildarlosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum. Ég hef ítrekað bent á þetta í umræðum um fjárlög og loftslagsmál.

Eldgos og gróðurhúsalofttegundir

Eins og flestir landsmenn hef ég fylgst með eldgosinu í Fagradal. Þótt vefmyndavélar hafi nýst frábærlega þá hafa aðstæður til þess að berja gosið augum verið stórkostlegar fyrir áhugamenn. Myndin hér að ofan er frá gönguferð fjölskyldunnar á skírdag. Öll vorum við að sjá eldgos í fyrsta sinn. Jarðfræðitímarnir úr menntaskóla hafa verið rifjaðir upp þessa dagana. Og efnafræðin.

Miðað við nýjustu tölur sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands gefur upp um losun CO2 frá eldgosinu í Fagradalsfjalli er dagleg losun nú um 10 þúsund tonn. Það er um fjórföld dagleg losun íslenska bílaflotans (einkabílar, bílaleigubílar, rútur, strætisvagnar og flutningabílar). Það má því gera ráð fyrir að CO2 losun eldgossins það sem af er árinu 2021 sé orðin meiri en frá bílaflotanum, hvers eigendur eru sveittir að greiða kolefnisgjöldin.

Samfara aukningu í hraunrennsli er matið að nú (10. maí) séu losunin 10-11 þúsund tonn/dag af CO2, 4000-5000 tonn/dag af SO2 og um 10 tonn/dag af flúorsýru. Mynd af jardvis.hi.is.

 Eldgos og brennisteinn

Jarðvísindstofnun metur nú að losun brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá eldgosinu sé um 4.000 tonn á dag eða um 1,5 milljón tonna á ári. Efnafræðingur heimilisins (sem er með mér á myndinni hér að ofan) segir mér að bílaflotinn gefi frá sér um 5 tonn af SO2 á ári ef miðað er við að allur brennisteinn í eldsneyti fari út úr púströri sem SO2. Bílaflotinn verður því næstu 30 þúsund árin að jafna brennisteinsmengunina sem þegar hefur komið frá eldgosinu, jafnvel að teknu tilliti til aukinnar mengunar sökum umferðartafa vegna Borgarlínu og annarra þrenginga.