Engin mismunun
Í hinu alþjóðlega bankahruni haustið 2008 kom í ljós að innstæðutryggingasjóðir Evrópulanda voru ekki til stórræðanna. Íslenski sjóðurinn sem starfað hafði athugasemdalaust í áratug samkvæmt tilskipun ESB gat engar innstæður bætt, hvorki í útibúi Landsbankans hér á landi né erlendis. Evrópska innstæðutryggingakerfið reyndist öllum viðskiptavinum Landsbankans gagnslaust. Þaðan fékk enginn krónu. Engum var því mismunað á grundvelli tilskipunar ESB um innstæðutryggingar. Bresk stjórnvöld gripu þá einhliða til þess ráðs að bæta allar innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi. Hið sama gerðu stjórnvöld í Hollandi.Stjórnvöld á Íslandi gripu til sömu ráða gagnvart innstæðueigendum í útibúum bankans hér á landi, hvort sem þeir höfðu íslenskt eða erlent ríkisfang. Engin mismunun á grundvelli þjóðernis átti sér stað. Þessar aðgerðir voru utan hins evrópska innstæðutryggingakerfis sem reyndist ónýtt er gaf á bátinn. Ríkisstjórnir allra landanna þriggja gripu til þessara ráða af sjálfsdáðum og á eigin forsendum. Með neyðarlögum frá Alþingi var innstæðueigendum veittur forgangur í þrotabú Landsbankans. Við þrot bankans hefðu Bretar og Hollendingar getað vænst þess að fá 674 milljarða úr innstæðutryggingum samkvæmt tilskipun ESB um lágmarkstryggingu. Neyðarlögin tryggja þeim hins vegar 1175 milljarða samkvæmt nýjasta mati á búi Landsbankans. Forgangur þessi er á kostnað annarra kröfuhafa í Landsbankann. Meðal þeirra eru Seðlabanki Íslands, Íbúðalánasjóður og íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir skuldabréfaeigendur.Íslenskur almenningur, skattgreiðendur og lífeyrisþegar, hefur því þegar lagt breskum og hollenskum innstæðueigendum til hundruð milljarða króna. Hugsanleg mismunun íslenskra stjórnvalda snýr því fremur að þessum aðilum en innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Þegar rætt er um mögulega mismunun í bankahruninu 2008 hljóta menn hins vegar að hugleiða eitt. Bresk stjórnvöld björguðu bresku bönkunum hverjum á fætur öðrum frá falli. Nema einum. Þau björguðu ekki breska bankanum Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. Þvert á móti.Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2011.