Sigríður Á. Andersen

View Original

Enski boltinn

Nú eru liðnir nær tveir mánuðir frá því EFTA-dómstóllinn vísaði öllum kröfum á hendur Íslendingum vegna Icesave út í hafsauga. Á þessum tíma hefur ekkert heyrst frá yfirvöldum í Bretlandi, Hollandi og Brussel um niðurstöðuna. Og varla þessum í Reykjavík heldur. Þó eyddu hin erlendu stjórnvöld fjórum árum og ómældum fjármunum í að sækja hinar löglausu kröfur sínar á hendur Íslendingum. Þau lögðust jafnvel niður við að spilla fyrir málum Íslands hjá AGS, lánsmatsfyrirtækjum og víðar. Til að leggja sitt lóð á vogarskálar óréttlætisins gerðist Evrópusambandið aðili að sókninni gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Að ógleymdri þeirri fordæmalausu efnahagslegu atlögu að Íslendingum sem beiting laga um varnir gegn hryðjuverkum í Bretlandi var haustið 2008. Öll þessi herferð gegn Íslendingum og viðbrögð manna við henni, ekki síst viðbrögð ESB og frændþjóða okkar, er auðvitað verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig, burtséð frá því mikla tjóni sem þetta olli þjóðinni til viðbótar við afleiðingar bankahrunsins. Það er hins vegar óumdeilt að þjóðin hefur orðið fyrir miklu tjóni, beinu og óbeinu, vegna óbilgjarnra krafna erlendra þjóða sem nú liggur fyrir að voru löglausar.Alþingi gerði innstæður á Icesave að forgangskröfum, fram fyrir til að mynda skuldabréfakröfur íslenskra lífeyrissjóða og Seðlabanka Íslands, með neyðarlögunum haustið 2008. Þrotabú Landsbankans hefur nú þegar greitt um 600 milljarða í erlendum gjaldeyri upp í forgangskröfur vegna Icesave, um 90% af þeim hluta sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna lágmarkstryggingar og um helmingur heildarkröfu vegna Icesave. Í vikunni bárust hins vegar fréttir af því að þrotabú Landsbankans ætti talsverða fjármuni umfram forgangskröfur eða ríflega 200 milljarða króna. Gangi mat á eignum búsins eftir ættu allar Icesave-innstæðurnar að geta fengist bættar úr búinu en flestir aðrir kröfuhafar sitja eftir með sárt ennið. Svo undarlegt sem það kann að hljóma þá reynast Bretar og Evrópusambandið hafa ofsótt Íslendinga fyrir að veita kröfum vegna Icesave forgang á aðrar kröfur! Sú staða er því komin upp, eftir að ESA hafnaði þeirri lögskýringu að íslenska ríkinu hefði borið skylda til þess að ábyrgjast Icesave-innistæður, að íslenska ríkið hefur í raun með neyðarlögunum tryggt breska og hollenska ríkinu allar þeirra kröfur vegna Icesave. Ekki liggur fyrir annað en að kröfur vegna Icesave verði áfram greiddar úr þrotabúinu í erlendum gjaldeyri.Ljóst er að íslenska ríkið hafði fullt tilefni til þess að höfða skaðabótamál gegn breska ríkinu vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Það var hins vegar ekki gert. Óbætt hjá garði liggur tjón Íslendinga, aðför að heiðri íslensku þjóðarinnar og umtalsverð leiðindi í óteljandi fjölskylduboðum. Ekki svo mikið sem afsökunarbeiðni virðist vera í farvatninu af hálfu Breta, hvorki formlega né óformlega. Er nú ekki sjálfsagt að utanríkisráðherra Íslendinga óski nú þegar eftir viðræðum við bresk stjórnvöld um heildarniðurstöðu í samskiptum ríkjanna vegna þessara mála? Er ekki sjálfsagt að farið verði yfir málin í heild sinni áður en til frekari útborgana til breskra stjórnvalda kemur úr þrotabúi Landsbankans? Og er ekki bara líka allt í lagi að minna Breta og aðra á það að snautleg framkoma þeirra í garð Íslendinga vegna þessa fáránlega máls verður í minnum höfð?Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. mars 2013.