Sigríður Á. Andersen

View Original

Fleiri leiðir við húsafriðun

Með lögum um menningarminjar eru öll hús 100 ára og eldri sjálfkrafa friðuð, alveg óháð eðli eða ástandi húsanna. Með sömu lögum er ríkisstofnun heimilað að gera tillögur um friðlýsingu yngri húsa, í samráði við annað apparat á vegum ríkisins, húsafriðunarnefnd. Á grundvelli þessa hafa fjölmörg hús, alls staðar á landinu, verið friðlýstFriðlýsing er kvöð sem þinglýst er á fasteign og takmarkar mjög heimildir eigandans til þess að breyta henni. Hefðbundið viðhald og viðgerðir friðaðra og friðlýstra húsa geta orðið mun meira íþyngjandi framkvæmdir en ella. Friðun felur þannig í sér gríðarlegt inngrip í eignarréttinn sem réttlætt er með vísan til varðveislu byggingararfsins sem vissulega hefur menningarsögulegt gildi. Gallinn við lögbundna verndun með þessum hætti, fyrir utan að vera brot á hinum helga eignarrétti, er hins vegar sá að ákvörðunin um verndun er ekki tekin af þeim sem þurfa svo að bera kostnaðinn af henni og lifa með henni. Ríkið lætur sig engu varða afdrif verndaðra húsa. Oftar en ekki hefur friðun í för með sér langdregna niðurlægingu í lífi fasteignar sem hefði frekar átt að líkna með niðurrifi. Menningararf þess húss hefði þá mátt varðveita á annan hátt með ýmissi nútímatækni. Friðun einstakra húsa getur þannig verðið ankannaleg og hefur án efa leitt til verulegs óþols manna fyrir sjónarmiðinu almennt. Því miður.Gallinn við skipulagsmál er að hið opinbera, ríkið í tilfelli verndaðra húsa og sveitarfélög að öðru leyti, einokar algerlega málaflokkinn. Ekki er hefð fyrir því hér á landi að íbúar taki skipulagsmálin í eigin hendur með því að ákveða sjálfir hvernig þeirra umhverfi þeirra þróast og með hvaða hætti staðið skuli að verndun með hliðsjón af byggingarsögulegum menningararfi. Í upphafi skal endinn skoða og það er ekki fráleitt að húsbyggjendur sammælist um verndun hverfismyndar eða götumyndar með samningum sín á milli um tiltekið útlit eða viðhald.Í elsta hluta Reykjavíkur eru margar götur sem hefðu mátt njóta slíkrar framtakssemi eigenda. Hringbraut í Reykjavík, ein elsta og fjölfarnasta gata borgarinnar, státar af fallegri húsaröð beggja vegna og merkilegum byggingarsögulegum arfi. Einhvers konar sundurlyndisfjandi virðist þó hafa skotið upp kollinum í ekki bara einu húsi eða tveimur heldur alla götuna á enda. Viðhaldsleysi og vægast sagt undarlegar breytingar á sumum húsum sem ekki nokkur maður hefur áður haldið fram að væru illa hönnuð einkenna nú götuna. Gamla Verkó hefur hins vegar verið reist upp til vegs og virðingar eftir framúrskarandi endurbætur. Sannkallað einkaframtak í húsaverndun þar á ferð.

>>Fasteignaeigendur eiga að taka skipulagsmálin í eigin hendur. Þannig geta þeir bæði aukið verðmæti eigna sinna og lagt af mörkum til menningararfsins.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. febrúar 2015.