Forsenda umhverfisverndar
Umhverfismál hafa áhrif á nánast allt í okkar samfélagi. Öll höfum við hagsmuni af umhverfisvernd með einum eða öðrum hætti. Það er margt sem getur stuðlað að umhverfisvernd. Almenn vitundarvakning skiptir miklu máli og í þeim efnum skiptir sköpum að réttum upplýsingum sé haldið á lofti, að fjallað sé um staðreyndir. Heitar tilfinningar knýja jafnan hugsjónarfólk áfram og eru ágætar sem slíkar en eiga það til að bera umræðuna ofurliði og koma því miður mögulega í veg fyrir nauðsynlega þátttöku marga í umræðunni. Einhverra hluta vegna hafa hægri menn, hvorki hér á landi né erlendis, ekki tekið mikið pláss í umræðu um beinar aðgerðir í umhverfismálum. Það er mjög miður því málstaður hægri manna á almennt jafn-vel við í umhverfismálum og öðrum málum.Fátt þjónar umhverfisvernd betur en virðing fyrir eignarréttinum. Það er ekki lengur deilt um það að menn fara betur með eigið fé en annarra. Það á við um umhverfið einnig. Þegar tekið var upp kerfi framseljanlegs kvóta við fiskveiðistjórnun árið 1991 var verið að mæta meginvanda miðstýringar ríkisins á náttúruauðlindum sem fólst í ofveiði fiskistofna og lítilli, ef nokkurri, framlegð í sjávarútvegi. Þetta viðurkenna flestir núna, þótt á hið pólitíska svið stígi af og til einstaka listamenn með spunaverk í takmarkaðan tíma sem lúta að meiri miðstýringu auðlindarinnar. Alls ekki fullkominni miðstýringu þó, bara smá, því hey; það þurfa auðvitað að verða til einhver verðmæti í greininni. Með öðrum orðum, sjónarmið hægri manna hafa orðið ofan á við stjórn fiskveiða, hér á landi og í sívaxandi mæli annars staðar. Þetta er umhverfisvernd á borði.Þessi sjónarmið eiga við á fleiri sviðum en fiskveiðistjórnun. Nú er til að mynda deilt um fiskeldi undan ströndum vinsælla áningarstaða ferðamanna vestur á fjörðum. Margir telja verðmæti á landi fara þar forgörðum. Það kann vel að vera en það vitum við ekki nema lögð sé mælistika á hagsmunina. Ef um er að ræða skerðingu á eignarrétti, beinum eða óbeinum, hljóta skaðabætur að koma til. Skaðabótarétturinn viðurkennir þetta að nokkru leyti en þó er langt í land með að skaðabætur geti komið að raunverulegum notum við umhverfisvernd á Íslandi. Eignarrétturinn þarf að vega hér þyngra á metum.Endurheimt votlendis er besta leiðin til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hingað til hefur hún verið í höndum landeigenda og áhugamanna um umhverfismál og gengið vel. Engin þörf er á miðstýrðum aðgerðum ríkisins. Ekki frekar en við innheimtu gjalda af ferðamönnum í skoðunarferðum. Þar fer best á því að eignarrétturinn sé skýr og menn fái frið til að sinna sínum störfum.
Sjónarmið hægri manna eiga ekki síður við í umhverfismálum en öðrum málum.
Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25. september 2016. - saa@althingi.is