Sigríður Á. Andersen

View Original

Frelsi helginnar

Eftir góða frídaga páskanna heimsótti ég embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Eins og hjá öðrum sýslumannsembættum á landinu fer þar fram umfangsmikil starfsemi um hin óskyldustu mál. Þar eru til dæmis gefin út leyfi til athafna sem löggjafinn hefur metið að nauðsynlegt sé að takmarka að einhverju leyti. Hafi einhver haldið að maður gæti tekið upp á því si svona að skemmta mönnum gegn gjaldi þá leiðréttist sá misskilningur hér með. Lög kveða nefnilega á um skemmtanaleyfi af ýmsum stærðum og gerðum. Sýslumenn hafa þar hlutverki að gegna.Eitt geta sýslumenn þó ekki; leyft skemmtanir á þeim helgidögum þegar ríkja á friður samkvæmt lögum nr. 32/1997 um helgidagafrið. Mér var sagt í heimsókninni að embættið fengi jafnan margar fyrirspurnir á þessum árstíma um helgidagafriðinn.Reglur um helgidagafrið eiga rætur að rekja til þjóðveldisaldar. Reglurnar hafa auðvitað tekið stakkaskiptum síðan þá en héldust merkilega lengi óbreyttar nánast alla síðustu öld. Núgildandi lög eru frá árinu 1997 og tóku við af lögum frá árinu 1926, sem hafði lítið verið breytt. Lögunum hefur verið breytt einu sinni, árið 2005 þegar heimilað var að hafa opnar matvöruverslanir á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudegi. Þó ekki allar matvöruverslanir heldur bara þær sem eru ekki stærri en 600 fm og 2/3 hluti veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvörum og tóbaki.Það er merkilegt að skoða þróun þessara reglna. Breytingar í frelsisátt hafa gjarnan náð fram að ganga með vísan til þarfa ferðamanna hér á landi, viðhorfa almennings og til krafna um svigrúm til afþreyingar á umræddum dögum. Minna hefur farið fyrir hugleiðingum um eðli helgidaga og hverjum það standi næst að tryggja raunverulega helgi slíkra daga, telji menn það nauðsynlegt, og með hvaða hætti. Undanfarin ár hafa talsmenn breytinga á þessu sviði í auknum mæli vísað til trúfrelsis máli sínu til stuðnings. Það kann vel að vera sjónarmið en þá hlýtur það óneitanlega að koma á óvart að sömu menn gera í sama málflutningi kröfu um að lögbundnir frídagar skuli eftir sem áður vera þeir sem lög um helgidagafrið tilgreina sem helgidaga, þ.e. helgidagar íslensku þjóðkirkjunnar.Í máli sem þessu, eins og í svo mörgum öðrum, hefur mér fundist fara best á því að þeir sem berjist fyrir frelsi geri það bara á einföldum forsendum frelsisins sjálfs. Í þessu máli með vísan til þess að helgi daganna kemur ekki með löggjöf. Hún hlýtur að fæðast með hverjum og einum, eftir sannfæringu hvers manns og verður ekki raskað nema með hans leyfi. Löggjöf kann að vera til óþurftar í þessum efnum.

Helgi daganna kemur ekki með löggjöf. Þá er helginni enginn greiði gerður með helsi.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 23. apríl 2017. Mynd ÁJM.