Sigríður Á. Andersen

View Original

Frumvarpið og frjálshyggjan

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, kýs að fara undarlega leið í stjórnarandstöðu vegna fjárlagafrumvarpsins. Það gerir hún með gífuryrðum um frjálshyggju sem hún telur einkenna frumvarpið. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að vinstri menn leggist almennt gegn fjárlagafrumvarpi hægri manna. Fyrir því hafa vinstri menn alveg málefnalegar ástæður, þ.e.a.s. ef litið er á málið frá þeirra sjónarhóli. Fjárlagafrumvarp hægri manna á ekki að fela í sér ríkisútgjöld nema að afar takmörkuðu leyti. Það á heldur ekki að fela í sér skattahækkanir. Og ef skattar hafa verið hækkaðir af vinstri mönnum á næsta fjárlagafrumvarp hægri manna að fela í sér skattalækkun. Allt þetta fellur vinstri mönnum illa.Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 felur hins vegar ekki í sér nokkurn samdrátt í ríkisútgjöldum heldur þvert á móti hækkun. Það felur í sér verulega skattahækkun en reyndar einnig skattalækkun. Svo kveður frumvarpið á um eina allsherjar og fordæmalausa millifærslu á fé milli hinna og þessara en þó ekki allra í samfélaginu. Fyrir utan afnám vörugjalds og lækkun efra vsk-þrepsins er lítið í frumvarpinu sem á skylt við frjálshyggju. Einstaka einkaframkvæmd á kostnað hins opinbera breytir ekki heldur nokkru um þetta. Í frumvarpinu liggur hins vegar jákvæð þróun í einföldun skatta og sjálfsagt að umræða um hana verði mikil á alþingi. Í þágu skattgreiðenda, líka umbjóðenda VG, er mikilvægt að hún verði málefnaleg, heiðarleg og án allra upphrópana. Þá er rétt að gera þá kröfu til þingmanna að þeir nefni hlutina réttum nöfnum.Formanni VG hrýs til að mynda hugur við hækkun þess sem hún kallar „matarskatt“ og vísar þar til lægra vsk-þrepsins. Hún nefnir ekki þá staðreynd að margvíslegir aðrir skattar eru lagðir á matvæli, t.d. vörugjöld sem nú er lagt til að falli niður. Tómatsósan sem fellur í lægra skattþrepið, hvar sem það endar, sleppur nú loks við þrenns konar vörugjöld. Á majónes hefur hins vegar aldrei verið lagt vörugjald en þrátt fyrir fjárlagafrumvarpið mun það áfram bera 19 króna toll á hvern lítra. Og hrökkbrauðið mun áfram bera 20% toll. Hvað finnst formanni VG um það? Kannski bara fegin, því það gæti jú verið verra. Venjulegt brauð ber nefnilega bæði 20% verðtoll og 6 króna toll á hvert kíló, ja nema brauðið komi frá til dæmis frá Albaníu, Frakklandi eða Hong Kong, þá er magntollurinn 5 krónur. Hvar er málsvari heimilanna þegar kemur að þessum matarsköttum?Vill formaður VG ekki bara leggjast á árar með frjálshyggjumönnum og stuðla að hóflegum sköttum, gagnsæi og jafnræði í skattheimtu? Ekkert kæmi heimilunum betur.

Matvæli eru skattlögð með margvíslegum hætti, ekki bara með vsk. Hverjir heyja baráttuna fyrir heimilin gegn hinum sköttunum? Ekki vinstri menn.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14. september 2014.