Sigríður Á. Andersen

View Original

Grænir hvatar?

Í byrjun mánaðarins stýrði ég pallborðsumræðum á „Blue Green“ ráðstefnu ACRE í Brussel, samtaka evrópskra hægriflokka, um umhverfismál. Hópur svonefndra mótmælenda hafði tekið sér stöðu fyrir utan ráðstefnustaðinn áður en hún hófst. Skömmu eftir að fyrsti frummælandinn tók til máls stóð einn mótmælandinn svo á fætur í salnum með stórt mótmælaspjald og hrópaði slagorð. Hann hafði ekki heyrt neitt af því sem frummælendur og aðrir gestir höfðu fram að færa en taldi engu að síður ástæðu til að „mótmæla“ og helst koma í veg fyrir að ráðstefnan gæti farið fram. Það tókst þó ekki.Meginmarkmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á hvernig við getum nýtt krafta markaðarins, frjálsa verslun og eignarrétt, til að bæta umhverfið og vernda náttúruna. Skýr eignarréttur ýti undir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og bættur hagur manna auki líkur á því að umhverfismálum sé sinnt. Um þetta voru þó deildar meiningar eins og gengur og sumir frummælenda vildu leggja meiri áherslu á inngrip ríkisvaldsins, meðal annars með svonefndum hvötum.Og er nokkuð á móti því að stjórnvöld hvetji menn til að velja umhverfisvænar lausnir? Eru grænir hvatar ekki augljós kostur? Grænir skattar, ívilnanir, styrkir?Ég er almennt efins um að stjórnvöld eigi að mismuna einstaklingum og fyrirtækjum. Reglur eiga að vera almennar en ekki sértækar. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða hverjir verða ofan á í alls kyns þróun á nýjum tækjum og tækni. Því má heldur ekki gleyma að stjórnvöld verða fyrir alls kyns þrýstingi hagsmunahópa sem hafa ekki aðeins áhrif á reglur og skatta heldur einnig hvata.Helstu grænu hvatarnir sem íslensk stjórnvöld hafa notað á síðustu árum snúa að sköttum á bíla og eldsneyti. Það hefur leitt til dísilvæðingar bílaflotans. Nú eru að því er virðist allir sammála um að þetta hafi verið misráðið enda er mengun (NOx og sót) frá dísilbílum margfalt meiri en frá bensínbílum. Ríki Evrópu eru því að vinda ofan af þessari stefnu. Annar „grænn“ hvati sem við þekkjum er skylda og skattaívilnun (þarf skattaívilnun til að fara að lögum?) til að blanda endurnýjanlegu eldsneyti í hefðbundið eldsneyti. Eins og kom nýlega fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um þetta efni á síðasta ári kostar þessi íblöndun ríkissjóð yfir þúsund milljónir á ári sem renna að mestu til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti. Ávinningurinn af þessu fyrir umhverfið er hverfandi, ef nokkur, og þessi ráðstöfun fjármuna ríkisins er afleit.Hvatar, jafnvel þótt kallaðir séu grænir, eru því vandmeðfarnir og hafa oft ófyrirséðar afleiðingar.

Umhverfismál eiga það á hættu að festast í klisjukenndri umræðu sem er ekki vænlegt til árangurs við umhverfisvernd.

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. febrúar 2017 – saa@althingi.is