Grátbroslegar „skuldbindingar Íslands“ í loftslagsmálum
Eftir nokkurt hlé er Ríkisútvarpið komið á kreik á ný með „skuldbindingar Íslands“. Stofnunin þurfti sjálfsagt að kasta mæðinni um hríð eftir að hún tapaði baráttunni fyrir því að við „stæðum við“ það sem hún nefndi „skuldbindingar Íslands“ í Icesave, sem reyndust engar vera þótt stofnanir úti í Evrópu héldu öðru fram.
Nú eru það „skuldbindingar Íslands“ í loftslagsmálum sem fylla fréttatíma jafnt sem barnatíma.
Skuldbindingin er að draga úr losun um 6%
En hverjar eru þessar „skuldbindingar Íslands“ í loftslagsmálum? Hver kannaði og gerði grein fyrir því hvað þær ættu að kosta þegar við gengumst undir þær? Hver er þessi „losun á ábyrgð íslenskra stjórnvalda“ sem sífellt er verið að vísa í?
Í stuttu máli snúast „skuldbindingar Íslands“ samkvæmt Parísarsáttmálanum um að draga úr losun um 29% frá árinu 2005 til ársins 2030. En þarna er þó aðeins átt við losun „á ábyrgð íslenskra stjórnvalda“ sem vill svo til að er aðeins um fimmtungur af heildarlosun Íslands. Hinar glæsilegu skuldbindingar Íslands um 29% samdrátt eru í raun skuldbinding um 6% samdrátt af heildarlosun Íslands frá 2005 til 2030.
Samanburð á „skuldbindingum Íslands“ og núverandi losun (2017) má sjá á myndinni hér að neðan. Skuldbinding er að minnka losun um 0,9 milljón tonn CO₂ en heildarlosunin er 15,3 milljónir tonna að landnotkun (LULUCF) og alþjóðaflugi héðan meðtöldu.
Skuldbindingar og ávinningur virkjana
Íslendingar hafa fyrir löngu lokið við stóru þættina í orkuskiptum sínum. Íslenskt þjóðfélag gengur 85% fyrir endurnýjanlegri orku. Nánast öll raforka er framleidd með endurnýjanlegum hætti og orka til húshitunar að mestu leyti einnig. Orkustofnun hefur áætlað hvað þessi orkuskipti sem þegar hafa átt sér draga árlega úr útblæstri CO₂. Það eru 19,9 milljónir tonna. Eins og sjá má á myndinni er sú losun sem við höfum þegar náð að draga úr tvítugfalt meiri en sú losun sem svonefnd skuldbinding Íslands hljóðar upp á.
Í þessum samanburði eru „skuldbindingar Íslands“ samkvæmt Parísarsáttmálanum því agnarsmáar. Allur bægslagangurinn og tugir milljarða króna sem verja á í að standa við „skuldbindingar Íslands“ líta einnig undarlega út frá þessu sjónarhorni. Við erum búin að draga úr losun um tæpar 20 milljónir tonn CO₂ á ári með hagkvæmum hætti en ætlum að verja tugum milljarða króna til að draga úr losun um tæpa 1 milljón tonna til viðbótar.
Aflátsbréfin tíföld skuldbindingin
Það er líka gagnlegt að bera „skuldbindingar Íslands“ saman við aflátsbréfin svokölluðu. Íslendingar selja svonefnd upprunavottorð raforkunnar sem hér er framleidd. Með þessari sölu geta fyrirtæki í Evrópu sem nota orku úr kolum, olíu og gasi haldið því fram við viðskiptavini sína að þau noti endurnýjanlega orku sem er auðvitað ekki tilfellið. Orkustofnun reiknar út hvað Ísland tekur við mikilli óhreinni orku og þar með útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Móttaka Íslands á losun í stað upprunaábyrgða er 9 milljónir tonna CO₂ en skuldbinding um að draga úr losun er aðeins tíundi hluti hennar eða 0,9 milljónir tonna.
Lítill ávinningur - mikill kostnaður
Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig stjórnvöld fámennrar þjóðar sem notar að stærstum hluta endurnýjanlega orku töldu sér trú um að það væri sérstakt verkefni sem gengi nánast framar öllu öðru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og réttlætanlegt væri að fórna til þess milljörðum úr vösum heimila og fyrirtækja. Það er sérstakt afrek að ætla að draga jafn lítið úr losun á alla þessa mælikvarða með jafn miklum tilkostnaði og íslensk stjórnvöld ætla sér. Ekki síst þegar haft er í huga að þessi losun mun hvort eð er minnka jafn og þétt með nýrri véltækni. Sú tækni mun koma eða er þegar komin hvort sem ríkissjóður Íslands lætur 60 milljarða í „loftslagsmál“ á árunum 2020 - 2024 (skv. fjármálaáætlun) eður ei.
Ávinningurinn er hlægilegur en kostnaðurinn grátlegur.